136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

dagskrá næsta fundar.

[13:03]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig talsverð hugmyndaauðgi hjá minni hlutanum að flytja tillögu um að breyta dagskrá sem forseti hefur sett upp með hefðbundnum hætti og ég tel að forseti Alþingis sýni mikið umburðarlyndi með því yfir höfuð að leyfa atkvæðagreiðsluna. Kosturinn við það er auðvitað sá að þá rennur væntanlega upp fyrir Sjálfstæðisflokknum að hann er í minni hluta. Það er staðreynd sem Sjálfstæðisflokkurinn á greinilega mjög erfitt með en er staðreynd engu að síður.

Það er gott að Sjálfstæðisflokkurinn vill sýna umhyggju fyrir heimilum og fyrirtækjum í landinu. Það er ákaflega verðmætt fyrir ríkisstjórnina að fá þann mikla gæðastimpil á fyrirliggjandi tillögur og frumvörp sem aftur og aftur hefur komið fram í ræðum sjálfstæðismanna, viljann til að taka fyrir þessi mál sem eru virkilega mikilvæg fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu, sagði hv. þm. Illugi Gunnarsson. Hann á væntanlega við stórhækkun vaxtabóta, endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra fyrirtækja og mikilvæga löggjöf um fjármálafyrirtæki og fjármálamarkaðinn svo dæmi séu nefnd. (Gripið fram í: Og Helguvík.) (Gripið fram í.) (Gripið fram í.) Það er ekki dónalegt að fá þann stimpil frá Sjálfstæðisflokknum að þetta séu virkilega mikilvæg mál fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. (Forseti hringir.) Þau komast á dagskrá um leið og Sjálfstæðisflokkurinn hefur lokið (Forseti hringir.) málflutningi sínum í stjórnarskrárfrumvarpinu. (Gripið fram í.)