136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:06]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mér heyrist á viðbrögðum forseta að hún ætli að taka þessum tilmælum vel og verða við því að fresta þingfundi meðan þessar umræður fara fram. Ég tók eftir því áðan að forseti þingsins, Guðbjartur Hannesson, var farinn úr húsi klukkan rúmlega þrjú til þess að vera viðstaddur og taka þátt í þessum umræðum.

Ég vil hins vegar benda hæstv. forseta á að það væri ágætt að fá upplýsingar um það núna strax hvernig forseti hyggst haga fundi vegna þess að hér eru fleiri hv. þingmenn að störfum en einungis hv. þm. Guðbjartur Hannesson. Níu eða tíu hv. þingmenn sem koma úr Norðvesturkjördæmi annaðhvort þurfa eða vilja mæta á þennan fund til að hitta kjósendur og fylgjast með umræðum. Það er um langan veg að fara þannig að þeir hv. þingmenn sem vilja taka þátt í sömu kosningabaráttu og forseti Alþingis (Forseti hringir.) þurfa töluverðan tíma til að koma sér (Forseti hringir.) á fundarstað. Ég bið hæstv. forseta um að taka tillit til þess.