136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:32]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ellert Schram hefur eitthvað misskilið mig í minni ræðu, að ég hafi verið að kvarta yfir umræðunni. Ég var að kvarta yfir því að hér hafi sárafáir úr stjórnarliðinu verið almennt í þingsalnum eða tekið þátt í umræðunni. Ég vil fá umræður í málinu.

Við höfum flutt margar ræður og mörg rök hafa komið fram af okkar hálfu sjálfstæðismanna. En enn eru mörg rök sem við eigum eftir að koma með. Ég átti eftir mikið efni sem ég hefði viljað koma að í mínu máli. Ég er fyrst og fremst að segja að við þurfum rökræðu í þingsal. Ég kvarta yfir því að hún hefur ekki átt sér stað vegna þess að stjórnarflokkarnir hafa ekki verið í þingsalnum. (Gripið fram í: Hvar er stjórnarandstaðan?)

Ég skal leggja mitt af mörkum til að sátt geti orðið. Þannig háttar til að ég á sæti í forsætisnefnd og ég lagði það til í forsætisnefnd í morgun að við mundum breyta dagskrá þingsins og tækjum önnur mál fyrir í dag en eyddum ekki þessum degi fram á kvöld og nótt í frekari umræðu af því að önnur mál væru brýnni. En það kom klárt og kvitt fram hjá forseta að þessi umræða yrði í dag.