136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[19:33]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það liggur alveg fyrir að hugtakið auðlind er notað í mörgum þeim lögum sem við höfum hér á landi og ég reikna með að hv. þm. Pétur Blöndal hafi greitt atkvæði með ýmsum lagasetningum þar sem það hugtak var notað. Í sjálfu sér er ekkert flókið og ekkert erfitt að nota hugtakið auðlind þó að breytingar verði og viðhorf og viðmiðanir og sjónarmið hvað telst til auðlinda. Í sjálfu sér er það allt túlkunaratriði hverju sinni. Menn byggja aldrei upp óbrotgjarna hluti þegar um lagasetningu er að ræða, það miðast allt við það sem hverju sinni heyrir undir. Hv. þm. Pétur Blöndal hefði betur tekið fleiri kúrsa í lögfræði en raun ber vitni þó að hann hafi sjálfsagt öðlast þó nokkra þekkingu hvað það varðar með langri setu á Alþingi. (Gripið fram í.) En hugtakið auðlind er í sjálfu sér ekkert flókið og það eru engin vandamál við það sem þarfnast skýringa. Hins vegar hefur verið rætt hvort hugsanlega gæti komið til einhvers ágreinings varðandi skilgreiningu á hugtakinu þjóðareign. Ég rakti áðan mismunandi sjónarmið fræðimanna hvað það varðar. Ég benti t.d. á þann fræðimann sem hvað helst hefur talað gegn því að þetta hugtak yrði notað, Sigurð Líndal, og benti síðan á sjónarmið Þorgeirs Örlygssonar sem er fræðimaður sem talar töluvert öðruvísi. Þarna eru mismunandi sjónarmið. Síðan rakti ég í framhaldi af því að niðurstaða mín væri sú að hægt væri að notast við þetta hugtak sem slíkt, það væri vel nothæft í þessu samhengi, ég tel svo vera. Það er skiljanlegt og skýranlegt en ég mun væntanlega víkja frekar að því (Forseti hringir.) í frekari orðræðum milli mín og hv. þm. Péturs Blöndals hvað þetta varðar.