150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

almannatryggingar.

437. mál
[14:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mál sem varðar hálfan ellilífeyri. Mér finnst mikilvægt við þetta tækifæri að ræða aðeins um það hvernig þetta ellilífeyriskerfi er hugsað í grundvallaratriðum. Fyrir kosningar töluðum við Píratar og fleiri um að hætta að skerða ellilífeyri almannatrygginga alfarið vegna atvinnuþátttöku og við þá umræðu birtist mjög áhugavert sjónarmið, aðallega úr ranni hæstv. fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar reyndar, en auðvitað úr öðrum áttum líka, og það var sú hugmynd að ekki beri að veita fólki fé úr almannatryggingakerfinu nema það þurfi á því að halda. Þetta er skiljanlegt sjónarmið. Almannatryggingakerfið var hugsað þannig þegar því var komið á fót og það hefur verið hugsað þannig alla tíð síðan. En þetta er hins vegar hugsun sem okkur ber að endurskoða þegar við sjáum tækifæri til að gera betra kerfi, sérstaklega þegar betra kerfi gæti hleypt fólki á vinnumarkað sem annars kæmist ekki á vinnumarkað og í öðru lagi myndi kosta mjög lítið fé úr ríkissjóði eða jafnvel ekki neitt.

Það vill þannig til að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson lagði fram fyrirspurn á síðasta kjörtímabili sem knúði fram mjög áhugaverð svör um kostnað við það að hætta að skerða ellilífeyri almannatrygginga vegna atvinnuþátttöku. Kostnaðurinn reyndist vera í kringum 1,1 milljarður eða 1,5 milljarðar, ég man ekki nákvæmlega hvort það var. Það myndi þýða að fólk sem fær ellilífeyri úr almannatryggingakerfinu gæti farið og unnið fyrir sér eins og það lysti. Nú vitum við alveg að þegar við komumst á aldur minnkar jafnan vinnugeta okkar. Þess vegna er jú m.a. almannatryggingakerfið, ellilífeyrir almannatryggingakerfisins og ellilífeyrissjóðir og allt það. Það er ekki bara vegna þess að fólk vill eiga þægilegt ævikvöld. Það er líka vegna þess að margt fólk getur minna unnið, það er auðvitað allur gangur á því, við erum mjög misjöfn og eigum við mjög misjöfn vandamál að stríða og allt það. En fólk sem er komið á aldur hefur oft mikla hæfileika sem eru vannýttir og sem þetta eldra fólk langar til að nýta en lendir í því að ef það byrjar að nýta hæfileika sína þá býr það jafnan við minna starfsöryggi, það er kannski með afmarkaðra svið af hæfileikum sem það getur nýtt til starfs áfram og fleira í lífinu sem kannski þvælist fyrir því að nýta krafta sína til fulls. Fyrir þær sakir einar og sér finnst mér alveg eðlilegt að við styðjum þetta fólk.

Það sama er með öryrkja. Öryrkjar geta sumir unnið eitthvað og það er ekki endilega spurning um starfshlutfall, það er kannski bara spurning um svið. Það er sennilega ekki til fjölbreyttari hópur á jarðríki en öryrkjar myndi ég hyggja, alla vega með þeim fjölbreyttari, það er alveg á hreinu. Sumir öryrkjar geta unnið á einhverju tilteknu sviði en búa við lítið starfsöryggi, eru lengur að finna vinnu og ég get giskað út í bláinn að það sé tilhneiging til að borga þeim lægri laun án þess að ég hafi rannsakað það sérstaklega. Þess vegna ber okkur að styðja fólk ef það er að vinna vegna þess að ef við gerum það ekki þá tökum við burt forsenduna fyrir því að fólk reyni og þetta er hluti af því sem er stundum kallað fátæktargildra. Það er það að fólk fær eitthvað frá ríkinu, eitthvað frá almannatryggingum, allt of lágar upphæðir, eins og hefur verið kvartað undan árum saman, sér í lagi frá hruni, eftir breytingar sem ég ætla ekki að rifja upp hér, þær hafa oft verið rifjaðar upp, þegar tenging var tekin úr sambandi og kerfinu breytt mjög mikið í kjölfarið. Fólk fær eitthvert fé frá ríkinu og það dugar ekki til þannig að fólk vill kannski auka tekjur sínar aðeins með því að vinna eitthvað smávegis og lendir þá strax í geigvænlegum skerðingum, í tilfelli öryrkja í krónu á móti krónu skerðingu. Mig langar svo mikið til að sér í lagi hv. Sjálfstæðisflokkur hugsi þá hugsun til enda, þessa krónu á móti krónu skerðingu. Hún er náttúrlega arfavitlaus. Það er ekki spurning um það hvað okkur finnst skynsamlegt að gera við fjármagn ríkissjóðs. Það er ekki rökrétt að hafa slíka skerðingu að það borgi sig ekkert að vinna, að fólk fái ekki krónu fyrir það. Og það sem meira er, slíkar skerðingar geta meira að segja orðið meira en króna á móti krónu skerðing. Nú hváir eflaust einhver, get ég trúað. Það er nú þannig að það er ýmis stuðningur sem öryrkjar geta fengið og sem minnkar eftir því hvað viðkomandi er með mikið af skattskyldum atvinnutekjum þannig að þegar viðkomandi byrjar að vinna og fær skattskyldar tekjur minnkar stuðningurinn úr öðrum áttum. Það er nefnilega þannig með almannatryggingakerfið að það er ekki einhver ein lítil eining. Þetta er flókið og viðamikið kerfi, eins og frægt er orðið, en er sem betur fer orðið aðeins einfaldara fyrir ellilífeyrishlutann eftir nýlegar breytingar sem ég met að hafi verið jákvæðar, m.a. til að útrýma krónu á móti krónu skerðingu þar. En þegar við erum með þessi kerfi veitir ekkert af því að við hugsum þau svolítið vítt, ekki bara eitthvert svona smá sparsl og kítti hér og þar. Við eigum að leyfa okkur að hugsa upp á nýtt það sem hefur þróast í tímans rás, einmitt til að sparsla og kítta hér og þar, oft með óþekktum eða ófyrirséðum hliðarafleiðingum sem koma mjög niður á sjálfum skjólstæðingum kerfisins.

Breytingin sem var gerð á ellilífeyriskerfinu var að mínu mati jákvæð eftir því sem ég best veit. Kannski eru komnar fram nýjar upplýsingar um það sem mér eru ekki kunnar, það má vera, en hún var vitaskuld umdeild á sínum tíma af góðri ástæðu. Þótt verið væri að taka burt krónu á móti krónu skerðinguna, sem eitt og sér var mjög gott, var grunni kerfisins í raun og veru svolítið breytt og slíkar grundvallarbreytingar koma sér sjaldan, hugsanlega aldrei, vel fyrir alla. Reikningsdæmið lítur alltaf verr út fyrir einhvern hóp og við þurfum alltaf að taka tillit til þess. Ég reiknaði reyndar út á sínum tíma við meðferð þess máls hvað það myndi kosta að breyta tölunum þannig að enginn kæmi verr út vegna hærri atvinnutekna. Ég er búinn að gleyma þeim útreikningum en ég man alla vega að það var hægt að gera eitthvað í því. Það var hægt að gera betur, gera meira en var gert án þess að ríkissjóður færi á hausinn. En auðvitað er þetta dýr málaflokkur og jafnvel litlar breytingar geta kostað mikinn pening. Þess vegna er það einmitt svo verðmætt að nýta breytingar sem kosta ekki mikinn pening, eins og þá að afnema skerðingar á ellilífeyri almannatrygginga gagnvart atvinnutekjum. Það kostar ekki mikinn pening og leysir úr læðingi vinnuafl og lífsgleði hjá fólki sem hefur gaman af því að nýta starfskrafta sína. Það er fullt af fólki þannig, þvert á það sem sumir virðast halda.

Sömuleiðis get ég ekki annað en minnst hér einnig á fyrirbæri sem ég veit ekki hvenær við eigum að ræða, virðulegur forseti, ef ekki við það tilefni þegar þessi kerfi eru til umræðu. Ég veit ekki alveg hvenær við fáum svigrúm í pontu til að ræða stórar hugmyndir nema þegar upp koma svona mál, en það eru borgaralaun. Ég átta mig á því að það þykir mörgum kannski klikkuð hugmynd í upphafi en ég hvet fólk til að kynna sér þá hugmynd vel og sér í lagi breytingar á hugmyndum sem koma fram hvað úr hverju og gerðar eru tilraunir með hér og þar. Ég verð þó að vara við svolítið misvísandi fréttum, sér í lagi frá Spáni. Þaðan komu nýlega fréttir á ensku um að þar væri búið að taka upp borgaralaun, svo ef maður skoðaði spænsku fréttirnar virtist sagan ekki vera alveg sú sama þannig að það er þess virði að skoða málin vel. Slíkar hugmyndir eru sjálfsagt háðar því að við þurfum að gera það einhvern veginn í smáum skrefum eða einhvers konar tilraunum. En þetta eru hugmyndir sem gætu hreinlega bundið enda á allt flækjustig almannatryggingakerfisins. Er það ekki gulrót, virðulegi forseti? Er það ekki eitthvað sem við ættum að vilja gera eða í það minnsta skoða alvarlega? Ég legg það alla vega til.

Ég vildi bara koma hingað upp og hafa nokkur orð um almannatryggingakerfið í ljósi þess að við erum að ræða þetta ágæta mál en ég kem til með að lýsa afstöðu minni til málsins við atkvæðagreiðslu.