150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[14:37]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Það komu umsagnir um að það þyrfti að laga gegnsæi. Það var svona það helsta sem kom. Nefndin brást við því, sem er gott, með því að laga gegnsæisvinkilinn eitthvað. Gegnsæi þýðir í raun að það kostar menn meira að láta undan freistnivandanum sem minnkar hann þar af leiðandi að einhverju leyti. Það er gott. Það þarf aftur á móti að hafa sjónarmiðið fyrr í ferlinu um það hvernig skuli gera þetta faglega til að ná raunverulega markmiðinu í staðinn fyrir að hafa þrjá aðila sem ráðherra skipar alla sjálfur, vinnandi eftir reglum sem ráðherra setur sjálfur og deilandi út öllu þessu fé, í staðinn fyrir að hafa þetta vel rammað inn. Það er ekki aðeins allt að sjö manna fagráð í Matvælasjóði heldur kemur fram í nefndarálitinu um Matvælasjóð, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur jafnframt mikilvægt að stjórn sjóðsins verði heimilt að skipa fleiri fagráð en eitt.“ — Ég meina, kommon! — „Bendir meiri hlutinn á að sambærilegt ákvæði er að finna í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 75/2007.“ — Þ.e. lögum um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

Þetta er bara svo borðleggjandi. Það að menn séu ekki tilbúnir til að gera þetta, hleypa fleiri sjónarmiðum að borðinu, í svona gríðarlega víðtæku máli sem snýr að svona ofboðslega víðtækum markmiðum, veldur áhyggjum. Þetta er loftslagsstefnan, þetta er orkuöryggi, ég er búinn að fara yfir þetta allt saman, þetta eru svo ofboðslega víðtæk markmið. Og það er talað um að einhverjir þrír aðilar geti sett nánari reglur og skilyrði um tilfærslu fjármuna milli einstakra verkefna ef þeir telja það þurfa. Þeir ráða því hvort þeir gera það.

Gegnsæi er gott og gott að færa inn þarna aukið gegnsæi. En við vitum hvernig þetta gegnsæi er þegar kemur að ríkisfjármálunum. Það er mjög lélegt yfir það heila og meira að segja á Alþingi fáum við lélegar upplýsingar. Menn kokka það einhvern veginn upp eftir á og ef málið kemst ekki í fjölmiðla þá hugsa þeir með sér að þeir komist upp með það. Þeir komast aftur á móti ekki upp með það ef gripið er inn í áður en menn hafa fallið fyrir freistnivandanum, (Forseti hringir.) ef það eru fagleg sjónarmið um að leita verði álits fyrir fram, áður en búið er að útdeila peningunum. Við vitum að mjög oft (Forseti hringir.) eru menn tilbúnir til að sætta sig við þetta og hugsa: Við gerum það bara og biðjumst svo afsökunar. Í staðinn fyrir að biðja um leyfi biðjast menn afsökunar, eða bara komast upp með það.