150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[14:40]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Við ræðum hér um Orkusjóð, sem er áhugavert fyrirbæri. Hann hefur verið til í nokkurn tíma og er nú að mörgu leyti að taka góðum breytingum. Mig langar til að nota tækifærið til að tala aðeins um nokkra þætti sem mér finnst þess virði að íhuga þegar við skoðum Orkusjóð í samhengi við þau verkefni sem við stöndum frammi fyrir varðandi orkuskipti og annað því um líkt. Það er þess virði að byrja á því að nefna að það hefur verið áhugaverð tilhneiging hjá þessari ríkisstjórn að stunda það sem mig langar til að kalla sjóðavæðingu, að búa til sjóði utan um hitt og þetta, yfirleitt einhverja nýja sjóði í stað þess að nota þá gömlu, og skipa stjórnir yfir þeim sem eru stundum mikið eftir geðþóttavaldi ráðherra. Ég er ekki viss um að það sé endilega góð þróun. Ég held að það sé kannski eðlilegt að einhverju leyti að til séu sérhæfðir sjóðir sem sinna ákveðnum verkefnum, en þegar ekki er farin sú leið sem lögð er til af hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni, að búa til einhvers konar fagráð í kringum sjóði, er hætt við því að þeir verði aldrei nýttir eins vel og annars gæti verið. Jafnvel þó að við göngum ekki út frá einhverri misnotkun, sem ágætlega hefur verið farið yfir hér, erum við ekki bara að reyna að koma í veg fyrir misnotkun heldur erum við líka að reyna að ná fram fullri skilvirkni og nytsemi sjóðsins sem um ræðir hverju sinni.

Ég nefni þetta vegna þess að þegar maður skoðar fjárlögin þá sjáum við að þessi sjóður fær úr ríkissjóði um 33,1 millj. kr. á ári. Samkvæmt tölum frá Orkustofnun veitir sjóðurinn styrki til ýmissa verkefna, yfirleitt til sex til tíu verkefna á ári, upp á samtals 20 millj. kr. plús eða mínus; 18 milljónir eitt árið, 22 milljónir hitt árið, um það bil þessar upphæðir. Það þýðir að við erum að leggja fjármuni í sjóð sem á að stuðla að orkuskiptum, ekkert minna verkefni en það að breyta því hvaða orkugjafa allt íslenskt samfélag notar, og það á að gera það fyrir minna en mánaðarlaun eins þriðjungs þingsins árlega. Það eru auðvitað aðrir sjóðir og önnur verkefni og önnur verkfæri sem eiga líka að stuðla að þessu markmiði. En ef við horfum blákalt á dæmið þá er þetta ekkert stórkostlega há upphæð. Ég veit ekki einu sinni hvað er hægt að gera fyrir upphæð af þessu tagi, 20 millj. kr. Kannski er hægt að kaupa einhverja pósta og hleðslustaura fyrir bíla og eitthvað þannig. En ég held að öllum geti verið það nokkuð ljóst að þetta er ekki það sem mun breyta orkugjöfum sem landið notar. Þetta er ekki það sem mun valda því að við hættum að nota bensínbíla eða dísilrafstöðvar og förum að nota vistvæna orkugjafa, og að einhverju leyti er það kannski ekki markmiðið. Það stendur samt í 2. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Orkusjóður styður jafnframt við verkefni sem stuðla að orkuöryggi og samkeppnishæfni á sviði orkumála og orkutengd verkefni á grundvelli orkustefnu, nýsköpunarstefnu, byggðastefnu og stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum.“

Þetta eru fjórar mismunandi stefnur sem þessar 33 millj. kr. á ári eiga að stuðla að. Mér finnst ansi mikið á þessar örfáu krónur lagt.

Það er erfitt að átta sig á því hversu mikla þýðingu þetta hefur. Ágætisumsögn barst um frumvarpið frá fyrirtæki sem heitir Valorka. Reyndar hefur maður heyrt frá þeim ansi oft í gegnum tíðina og það er rétt sem þau segja þar að það var vont þegar nýsköpunarvinkillinn og stuðningur við nýsköpun var tekinn út úr lögum um sjóðinn fyrir nokkrum árum. Það er ágætt að sjá það koma aftur inn. En eins og kannski er gert víðar í stjórnkerfinu er hér verið að bæta við fleiri verkefnum án þess að nýtt fjármagn fylgi. Það er kannski eitthvað sem við ættum að ræða um undir fjárlögum, en ræðum það aðeins hér. Setjum það í samhengi vegna þess að nú var verið að kynna á dögunum nýja og uppfærða stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum sem á einmitt að taka á þessum atriðum. Í þeirri stefnu er markmiðið að vísu ekki hækkað, það stendur áfram í 35%, og reyndar er bara talað um 30% en ekki 35–40% eins og var áður. Kannski má því segja að dregið hafi verið úr markmiðinu. En ókei, 35% samdráttur í koltvísýringslosun á ári. Honum eigum við að ná með því að vera með fullt af nýsköpun, þróa nýja tækni, gera fullt af flottum hlutum. — Og fjármagna það hvernig? Það er talað um 7 milljarða í heildina í þessa umbreytingu, þ.e. í samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, samdrátt í losun koltvísýrings, 7 milljarðar kr. á ári, ef mig misminnir ekki, sem er að vísu minna en við eyddum að jafnaði í hverri viku hér á þingi á meðan Covid stóð sem hæst, ef maður jafnar þetta út, m.a. í að fjármagna það að fyrirtæki gætu verið með fólk starfandi án þess að þurfa að greiða því laun, ríkið myndi bara sjá um það.

Heilt yfir get ég bara ekki séð að þetta virki. Við erum á einhvern hátt að reyna að breyta því hvaða orkugjafa íslenskt samfélag notar og á sama tíma að reyna að vera einhvers konar fyrirmynd fyrir önnur lönd í kringum okkur. Það sem við leggjum til verksins er vel innan við 1% af fjárlögum og þar að auki erum við að tala um sjóð sem er ætlað að láta þetta virka út frá nýsköpunarsjónarmiði og út frá því sjónarmiði að fjármagna verkefni á borð við varmadælur við ráðhúsið á Hellissandi, eins og var gert 2018, eða varmadælur í áhaldahús í Ísafjarðarbæ eða varmadælur við grunnskóla í Langanesbyggð. Allt voru það góð verkefni og varmadælur eru umræðuefni sem ég væri alveg til í að fjalla um lengur, þær eru alveg stórkostlegt fyrirbæri. Varmadælan sem var sett upp í Vestmannaeyjum fyrir nokkrum árum tekur inn um 1 MW af orku en skilar af sér 4 MW með því að taka hita úr sjónum, og það er alveg frábært. Þetta er margfalt betri nýting á raforkunni til að hita húsin í Vestmannaeyjum. Slíkar varmadælur er verið að setja upp mjög víða og það er fínt að verið sé að fjármagna þær úr Orkusjóði. Þetta þýðir að minni krafa verður um raforkuframleiðslu víða um land. Það þarf kannski ekki virki jafn víða, það þarf kannski ekki jafn margar borholur fyrir jarðhita. Þar af leiðandi verður minni losun á gróðurhúsalofttegundum þar þannig að þetta er allt saman jákvætt. En þegar við horfum á þessi verkefni þá erum við að tala um lítið fjármagn sem nær ekki stórum hluta af heildarkostnaðinum við svona verkefni sem getur auðveldlega hlaupið á tugum eða hundruðum milljóna, ef ekki milljarða, í tilfellum stærri varmadæluverkefna eða annarra orkuverkefna. Ég sé ekki hvernig þetta á að ganga upp.

Kannski á þetta að heita einhvers konar metnaður, 33 millj. kr. og reyndar 100.000 kr. betur í metnað á hverju ári. En ég átta mig bara ekki á þessu, forseti. En svo þegar maður er búinn að taka allan þennan metnað fyrir þá kemur frumvarp eins og þetta, sem er reyndar ekki upp á nema níu greinar sem eru mestmegnis fínar. Þar er verið að leiðrétta nokkra galla sem hafa verið í gegnum tíðina og reynt að búa málinu betri grunn. Gott og vel.

Í greinargerð með frumvarpinu er talað um þá reynslu og þekkingu sem byggst hefur upp hjá Orkusjóði og því verði að telja æskilegt að ákveðið svigrúm sé til staðar til að fela Orkusjóði að styrkja orkutengd verkefni sem eru á hverjum tíma í samræmi við almenna stefnu stjórnvalda á sviði orkumála. Þessi nauðsyn er í raun tilefni lagasetningar núna. En þegar maður horfir á hvað nákvæmlega gerist þá er eingöngu verið að búa til þriggja manna stjórn sem ráðherra ákveður og segir að sjóðurinn eigi að hafa eftirlit með öllum þessum 33 millj. kr. á ári og reyndar náttúrlega þeim peningum sem hafa safnast upp í gegnum tíðina. Og jú, það eigi að vera einhvers konar eftirlit og fólk eigi að skrifa skýrslur, kannski nota eitthvað af þeim peningum sem sjóðurinn hefur fengið í að skrifa skýrslur, en vinnan við þær kostar yfirleitt jafn mikið og fékkst úr sjóðnum til að byrja með.

Ég veit ekki hvað skal segja meira um þetta, mér finnst bara almennt séð þessi sjóðavæðing, og það að hafa ótrúlega marga örlitla sjóði sem hafa afskaplega lítið af fjármagni en stórt og mikilvægt hlutverki í samfélaginu, eiginlega leiða af sér umhverfi þar sem við getum alveg átt von á því að afleiðingarnar og árangurinn verði afskaplega takmarkaður. Ég gæti gagnrýnt þetta lengur en ég ætla að láta staðar numið hér.