150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[17:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í stuttu máli: Jú, orkunýtingin er gríðarlega mikilvæg. Það er gott að sjá hversu vel hefur gengið síðustu ár, bæði að nýta orkuna betur og geyma hana betur. Geymslan er annað atriði sem er kannski ekki alveg jafn augljóst af dægurumræðunni, það að geyma orku og flytja hana er raunverulega stóri vandinn. Ástæðan fyrir því að við erum svo fíkin í olíu er sú að hún er létt, meðfærileg og lítil. Lítið magn olíu er smekkfullt af orku sem er auðvelt að leysa úr læðingi með því einu að kveikja í henni, hvað þá ef hún er bætt og breytt í bensín og hvaðeina fyrst. En stóra stökkið í getu okkar til að nota rafmagn til hluta sem við annars þurfum olíu í verða rafhlöður, einhvers konar ofurrafhlöður. Nú er í gangi kapphlaup og hefur verið lengi. Það gengur hægar en maður myndi búast við þegar risar berjast í kapphlaupi um eitthvað sem virkar einfalt. Það er mjög raunverulegt vandamál hversu erfitt er að geyma rafmagn.

Tíminn þrýtur, virðulegur forseti, en þetta er hárrétt ábending hjá hv. þingmanni.