150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[20:27]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt þessi möguleiki á pólitískum úthlutunum sem verið er að vekja athygli á. Pólitískar úthlutanir leiða ekki til þess að bestu verkefnin séu fjármögnuð nema kannski óvart. Það getur að sjálfsögðu gerst en slíkt er handahófskennt. Vandamálið í hnotskurn er að pólitískar ástæður jafnast ekki á við faglegan rökstuðning þegar á að taka tillit til hlutverks sjóðsins varðandi hin gríðarlega fjölbreyttu viðfangsefni hans; orkuöryggi, samkeppnishæfni, orkustefnu, nýsköpunarstefnu, byggðastefnu og loftslagsmál. Þetta er ekkert smáræðisapparat sem á að taka tillit til. Ég sakna þess pínulítið að þarna sé sjálfbærni ekki nefnd þó að orkustefna, nýsköpunarstefna og loftslagsstefna byggi að sjálfsögðu að miklu leyti á sjálfbærni. En það ætti líka að taka tillit til sjálfbærni og ítreka að hún sé mikilvægt markmið þessa sjóðs. En af því að við viljum forðast pólitískar úthlutanir og pólitísk afskipti í faglegu starfi þá er þetta, eins og hv. þingmaður nefnir, dálítið áhugavert og stingur í stúf að í þessu litla einfalda máli sé ekki haft svipað fyrirkomulag og er í öðrum sjóðum. Mig langaði að ná upp þessum mikla mismun (Forseti hringir.) á milli pólitískra ástæðna fyrir vali á verkefnum og faglegs rökstuðnings.