150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[20:57]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum nýlegt dæmi um það hvernig hlutirnir fara stundum betur þegar vísindamenn ráða ferðinni frekar en stjórnmálamenn, þ.e. í Covid-ástandinu. Það er ekki þannig að við eigum alltaf að færa allt vald í hendurnar á nafnlausum embættismönnum eða jafnvel nefndum embættismönnum, heldur þarf alltaf að vera pólitískt vald og pólitísk ábyrgð. En það má heldur ekki vera þannig að það verði að einhverju geðþóttavaldi sem einstaka stjórnmálamenn fara með og geta jafnvel gert vonda hluti með ef þeir eru þannig þenkjandi. Ég ætla ekki að eyða tíma í að nefna fjöldamörg nýleg dæmi frá Bandaríkjunum um hvernig það getur farið.

En þetta er rétt. Hitinn sem er undir Íslandi er kannski ekki olía í þeim skilningi að við getum flutt hann út og mokgrætt á honum. En við getum nýtt hann til að þróa samfélag okkar hraðar og betur ef við kjósum að nýta hann vel. Hitaveituvæðingin var einmitt slík framkvæmd. Við náðum að nýta varmann rosalega vel til að fleygja þjóðinni fram. Við fórum úr torfkofum yfir í háhýsi á einni kynslóð, og við getum gert jafnvel meira en það ef við dettum ekki í þann gír að samþykkja þá afleitu og fráleitu hugmynd að við höfum ekki efni á því að reka samfélag. Það er auðvitað fráleitt. Við höfum efni á því og við eigum að flytja út þá tækni sem við höfum. Við eigum að nýta þá tækni betur. Við eigum að þróa hana áfram. En við skulum samt ekki ganga út frá því að það sé sjálfgefið að gróðinn sem við fáum af því að búa ofan á möttulstróki (Forseti hringir.) sé endilega eitthvað sem við munum búa að endalaust.