136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:29]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi óska eftir því við hæstv. forseta að umræða um skýrslu bresku fjárlaganefndarinnar verði töluvert ítarleg hér á morgun ef forseti hyggst ræða um hana á morgun en ekki í dag, sem mér finnst reyndar óásættanlegt.

En talandi um málþóf þá vil ég taka það fram að ég mótmæli því harðlega að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum stundað hér málþóf í umræðum um stjórnarskrána. Ég vil benda þeim hv. þingmönnum (Gripið fram í.) sem hafa sakað okkur um það að þeir sjálfir gerðu hér mikinn ágreining um málefni eins fjölmiðils, nefnilega Ríkisútvarpsins, og um það mál ræddu samfylkingarþingmenn og vinstri grænir samtals í 119 klukkustundir og 46 mínútur. (Gripið fram í.)

Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum talað um stjórnarskrána í 34 klukkustundir og 30 mínútur. Þannig að þeir sem saka okkur sjálfstæðismenn um málþóf (Forseti hringir.) og stóðu sjálfir fyrir umræðum um einn fjölmiðil hér í tæpar 120 (Forseti hringir.) klukkustundir ættu frekar að líta í eigin barm en að halda slíku fram.