136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:57]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að mér er ekki kunnugt um að sveitarstjórnarmenn almennt hafi mótmælt þessum hugmyndum hástöfum eins og hv. þingmaður nefnir. Ég vil vekja athygli á því sem segir á bls. 5 í nefndaráliti, um forsendur fyrir þeirri breytingartillögu sem þar er lögð fram um stjórnlagaþing, þ.e. verið er að stytta verulega þann tíma sem þinginu var ætlað að starfa miðað við upphaflegt frumvarp, úr einu og hálfu til tveimur árum niður í eitt ár, en ekki er verið að breyta skilatímanum. Lok verksins eru áætluð hin sömu og voru í upphaflega frumvarpinu. Þetta er m.a. gert til þess að spara fjármuni og sú tillaga að kjósa samhliða sveitarstjórnarkosningum til stjórnlagaþings er byggð á sama grunni.

Fyrir liggur minnisblað frá fjármálaráðuneytinu um kostnað við stjórnlagaþing með þessum hætti. Þar er auðvitað ítrekað að mjög erfitt geti verið að áætla þetta. En menn hafa hér talað um að frumvarpið hafi upphaflega kostað um 2 milljarða, það stjórnlagaþing sem þar var í burðarliðnum. En hér eru menn að tala um 340 millj. kr. auk kosningafulltrúa sem eru upp á eitthvað 25 millj. kr. Þannig að við erum að tala um kostnað á bilinu 300–400 millj. kr.

Það er líka mikilvægt að það komi fram að með þessu nefndaráliti er tekið fram að nefndin telur ekki sýnt að fulltrúar þingsins þurfi að vera í fullu starfi allan þingtímann þannig að sú tillaga sem hér liggur frammi um skipulag stjórnlagaþings er langtum umsvifaminni en sú sem lá fyrir upphaflega.