150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[14:30]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir ræðuna. Ég held að við getum mörg verið sammála um að þetta er hið besta mál, Orkusjóður og hlutverk hans að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkuauðlinda landsins, einkum þegar á að finna aðgerðir sem miða að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka síðan nýtingu á innlendum og endurnýjanlegum orkugjöfum sem er mjög jákvætt og þarft og eiginlega umfram það, það er nauðsynlegt.

Mér þykir líka gríðarlega spennandi þetta verkefni sjóðsins þar sem við stuðlum að því að auka samkeppnishæfni okkar á sviði orkumála. Við eigum náttúrlega að vera í fararbroddi þar, það gefur einfaldlega augaleið. Ég trúi því að ef við náum að uppfylla þetta verkefni þá er það ávinningur sem við munum njóta, ekki bara með því að vera í fararbroddi á því mikilvæga sviði og njóta margvíslegs ávinnings, heldur held ég að það hljóti líka að vera út frá viðskiptum fjárhagslegur ávinningur þar í samkeppni þjóða.

En þá komum við að því sem hv. þingmaður hefur verið mjög öflugur í að gagnrýna í umræðu um málið og það er hvernig staðið er að skipan í stjórn. Ég verð að segja, eftir að hafa skoðað málið, nú sit ég ekki í þessari nefnd og hef ekki fylgst svo gjörla með framvindu mála þannig séð, en mér kemur þetta á óvart og ég hef ekki fundið rökstuðning fyrir því. Ég er kannski ekki endilega jafn svartsýn eða raunsæ og hv. þingmaður sem talar um freistnivanda, þó að ég sé algerlega sammála því að vissulega sé hann til staðar. Ég sakna hins vegar einfaldlega hugmynda á borð við að það skuli tryggt að einhver úr háskólasamfélaginu eigi þarna sæti eða eitthvert af okkar besta fagfólki sem þekkir best til orkumála.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann aðeins út í umræðuna, (Forseti hringir.) hvað hann telur eiginlega liggja þarna að baki. Þetta skilur einfaldlega eftir spurningarmerki vegna þess að það hefði verið svo einfalt að ganga frá þessu, (Forseti hringir.) það hefði ekki gengið á nokkurn hátt gegn markmiðunum, ekki truflað neitt. Bara þessi einfalda hugmynd um að skilgreina á einhvern hátt hvað aðilar sem sitja í stjórn þurfa að hafa til að bera.