150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[15:04]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, auðvitað er það rétt hjá hv. þingmanni, bæði það að vel er hægt að treysta Akureyringum fyrir rekstri svona sjóða, en líka að það er reksturinn sem ég var að vísa í áðan varðandi þessar 33 milljónir, en ekki heildarumfang sjóðsins. Það er fullkomlega eðlilegt að spyrja um það. Það lætur mig kannski líta svolítið kjánalega út. En ókei, gott og vel, það er þá bara þannig.

En hitt er annað mál, að hvort sem við erum að tala um 33 milljónir eða 300 milljónir eða hvað, þá er þetta verkefni massíft. Það er verkefni á grundvelli orkustefnu, nýsköpunarstefnu, byggðastefnu og stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum, og hvert og eitt þessara verkefna er margra milljarða króna verkefni. Ég sé ekki hvernig þessi sjóður getur með raunhæfum hætti sinnt öllum þessum verkefnum, ekki síst þegar við vitum alveg að verkefni sjóðsins eru stór. Við vitum líka að umfang orkuskipta einna og sér er margfalt stærra en svona sjóður, og þótt við tækjum um 5% af fjárlögum á hverju ári í þetta tæki samt einhverja áratugi að vinna þetta upp. En það er þannig með svona sjóði og mörg önnur verkefni að þau geta tekið endalaust við. En ef nálgun okkar er einhver önnur en sú að leggja miklu meiri metnað en við höldum að við þurfum að leggja í þetta — ef við finnum skrýtnustu, ólíklegustu verkefnin, fáum menn til að réttlæta þau, útskýra mál sitt, og fjármögnum verkefnin þannig að það geti mögulega komið eitthvað út úr þeim — þá verða til þessi margfeldisáhrif sem við erum alltaf að leita að í nýsköpun og öðru á Íslandi. Því miður hef ég ekki séð að þessi margfeldisáhrif séu til staðar, ekki nema að litlu leyti. Ég ræði það kannski nánar á eftir.