150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[17:08]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góða framsögu um þetta mál. Mig langaði aðeins að fylgja því eftir og fá fram frekari sjónarmið hjá honum um umsagnir við mál og hvers vegna þær fá ekki meira vægi og af hverju tækifærið er ekki notað til að hlusta á þær einmitt þegar verið er að setja lögin og kalla eftir umsögnum. Mér hefur fundist áhugavert að kynnast núna þessu almenna stefi, að mál á þinginu fá umfjöllun að því er virðist í engu samræmi við mikilvægi þeirra eða stærð. Ríkisstjórnarmálin koma fram hérna á lokametrunum. Ég nefni mál sem við þekkjum bæði, sitjandi í allsherjarnefnd, þar sem er verið að innleiða nýja auðlindapólitík varðandi jarðakaup á landinu öllu. Það mál hefur verið rætt, held ég, á fjórum, fimm fundum og ég geri ráð fyrir að það verði að lögum eftir einn, tvo daga eða hvernig sem það verður. Ég hefði áhuga á að heyra sjónarmið reyndari þingmanns hvað það varðar.

Síðan er stef sem maður merkir líka í nefndarálitum þar sem umsagnir eru afgreiddar eða nánast tæklaðar með þeim hætti að segja að meiri hlutinn skilji sjónarmiðið og átti sig á því að hlutirnir séu einhvern veginn og einhvern veginn. Það minnir mig dálítið á hjal foreldris, og játa sök þar sjálf, þegar maður segir við barnið sitt: Kannski seinna. Svo kemur að því að barnið lærir að „kannski seinna“ þýðir yfirleitt nei. Ég hefði áhuga á að heyra frá hv. þingmanni hvað það varðar.