150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[20:21]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru mjög áhugaverðar hugleiðingar og eiga algjörlega rétt á sér. Ég er sammála en þó með þeim fyrirvara að ég vil líka varast það að við setjum einhvern þann blett á pólitíska fulltrúa að þeir geti alls ekki verið starfinu vaxnir eða séu líklegir til að klúðra málum eða fara með þau í aðra átt en á þann veg að almannahagsmunum sé best þjónað. Þar erum við líka komin út í ógöngur. Aftur eru það bara leikreglur og gegnsæi sem skipta mestu máli. Ef við í pólitíkinni göngum þannig frá þessu máli að leikreglur séu í lagi þá er ég hjartanlega sammála hv. þingmanni um að fagaðilarnir þarna inni eiga að hafa eitthvað um þetta mál að segja. Hvað varðar þennan varnagla, um að leita skuli umsagna, þá er þetta mál náttúrlega til þess fallið að auka sjálfstæði sjóðsins. Það er eins og að leyfa barninu að ganga en leiða það áfram, að Orkusjóður leiði það áfram, frekar en að treysta því, en búa svo um hnútana að það kunni örugglega að ganga, svo að ég fari nógu langt með þessa ódýru samlíkingu. Það er ofboðslega áhugavert að við skulum fara í þann farveg með þetta mál, að hafa það svona gjörsamlega opið og óskilgreint hverjir það eru sem vega þyngst þarna. Þetta hljómar næstum eins og þessu sé ætlað að vera skúffudeild í ráðuneytinu, það er svolítið það sem maður les út úr þessu. Ég ítreka að ég hef ekki verið í umræðum í nefndinni og átta mig ekki á því hvort það er eitthvað sem hefur alveg verið slegið út af borðinu eða hvort það er jafnvel hugmyndin. En þegar maður les þetta og reynir að geta í þær eyður sem eru hérna þá er það einhvern veginn það sem kemur upp í hugann.