150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[22:54]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir hans góðu ræðu og fínu svör gagnvart þessum bráðnauðsynlega Orkusjóði okkar. Nú er ýmislegt sem ég velti fyrir mér og mig langar til að viðra við hv. þingmann. Staðreyndin er sú að hér er verið að einfalda regluverk og þetta er hið ágætasta mál, en við getum kannski dregið ýmislegt fram, þar á meðal það, sem hv. þingmaður benti á áðan, að markmiðið með sjóðnum er ansi umfangsmikið. Það virðist vera að hlutverk sjóðsins sé að styðja við verkefni sem stuðla að orkuöryggi og samkeppnishæfni á sviði orkumála og orkutengd verkefni á grundvelli orkustefnu, nýsköpunarstefnu, byggðastefnu og stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum, eins og hv. þingmaður kom inn á áðan. Er þetta ekki allt of mikið til að við getum ímyndað okkur að eitthvað almennilegt verði úr þessu miðað við það fjármagn sem virðist vera til staðar í sjóðnum? Ef ég skil rétt erum við að setja í þetta um 25 millj. kr. á ári, eða hvort það eru 20 millj. kr. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann geti frætt mig um það hvort kannski séu ekki nema 25 millj. kr. til í sjóðnum nú þegar. En þetta er svona það fyrsta. Hv. þingmaður byrjaði ræðu sína áðan á að vísa til 5. gr. Mig langar í seinna andsvari mínu að koma pínulítið inn á 8. gr., sem ég hef kannski ekki tíma til núna.