139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

sjúkratryggingar.

784. mál
[15:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er þá þannig að maður sem lendir í einhverjum óverulegum kostnaði í janúar og svo miklum kostnaði í desember og janúar næsta ár getur þurft að borga mjög háa upphæð á stuttum tíma af því að hann fellur inn í tvö tímabil.

Það er ekkert sagt meira um neyðartilfelli. Auðvitað gæti einhver fengið hjartaslag einhvers staðar og lyfjafræðingur hlaupið út í apótek og gefið manninum lyf sem kostuðu kannski mikið. Það er spurning hvort slíkt sé neyðartilfelli.

Síðan er spurning hvort vera eigi með sérreglur fyrir aldraða, öryrkja og einstaklinga 60–66 ára sem njóta ellilífeyris þannig að viðkomandi njóti betri kjara ef hann þiggur ellilífeyri, því að ef hann gerir það ekki af því að hann vill ekki sækja um ellilífeyri þá er hann verr tryggður.