149. löggjafarþing — 128. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[10:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndarálitum meiri hluta hv. fjárlaganefndar um annars vegar fjármálastefnu og hins vegar fjármálaáætlun. Til að halda þræði ætla ég að fara yfir breytingartillögu sem meiri hluti nefndarinnar leggur til varðandi fjármálastefnu, en þar sem við erum að ræða þetta samofið hefur ýmislegt gengið á í efnahagslífinu og þannig haft áhrif á umfjöllun nefndarinnar um málið. Margt hefur gerst síðan fjármálaáætlun gekk til hv. fjárlaganefndar 28. mars sl. Aðalatriðið er endurskoðuð stefna sem er lögð fram 29. maí þannig að tímaramminn er svolítið sérstakur í þessu. Endurskoðaðri fjármálastefnu er vísað til nefndar 4. júní. Þá er fjármálaáætlun búin að liggja allan þennan tíma í umfjöllun hv. fjárlaganefndar, fjölmargar umsagnir við málið og gestakomur og á þeim forsendum sem fjármálaáætlunin byggði á og kom hér endurskoðuð til nefndar. Margt hefur breyst síðan þá eins og við sjáum í þessum forsendum sem við reifum nokkuð ítarlega í nefndaráliti meiri hluta hv. fjárlaganefndar.

Áætlunin hvílir auðvitað eins og lögin mæla fyrir á stefnu og í fyrri umr. um fjármálastefnu var mikið rætt um lagagrundvöllinn, þ.e. þessa tillögu um endurskoðun stefnunnar. Ég vil fyrst, í framhaldi af þeirri umræðu sem snýst um formið, tala um þá veikleika í verklagi þeirrar hringrásar sem fjármálaráð lýsir svo vel sem lög um opinber fjármál eru, þ.e. stefna og áætlun. Áætlun hvílir á stefnu og svo eru fjárlög. Þetta er þessi samfella og svo skal endurskoða áætlun árlega.

Það er beinlínis ekki gert ráð fyrir því að það séu tíðari ríkisstjórnarskipti en á hefðbundnum fjögurra ára fresti né heldur að miklar umbreytingar séu í efnahagslífinu sem kalli á miklar breytingar vegna þess að tímaramminn er svo þéttur í þessari hringrás. Ég held að það sé að nokkru leyti það sem við höfum upplifað í okkar vinnu við þessi mál, virðulegi forseti, en ég held að með góðri og ötulli vinnu og samvinnu nefndar, ráðuneytis og hagaðila sé hér mjög góð niðurstaða í ljósi mjög breyttra efnahagsforsendna.

Það er kannski það að segja, þegar við erum að tala um hið opinbera, að sveitarfélögin og opinber fyrirtæki eru hluti af því og endurskoðuð fjármálastefna skapar svigrúm til þess að afkoma sveitarfélaga geti sveiflast meira með breyttum efnahagshorfum. Þá er gert ráð fyrir því að afkoma opinberra fyrirtækja verði enn í gildandi stefnu nokkru lakari, eins og það er orðað í nefndaráliti meiri hluta.

Í fyrri umr. var nokkuð rætt um þá hagspá sem stefnan hvílir á eða spá Hagstofunnar. Það er mjög til bóta í gegnum tíðina og bæði fjármálaráð og hv. fjárlaganefnd kalla eftir því að líta til fleiri spáa og gera fráviksgreiningar og sviðsmyndagreiningar. Það er mjög til bóta í greinargerðum með málum af þessu tagi og eins að geta skoðað fleiri spár í samhengi við þessa hagspá Hagstofunnar sem liggja til grundvallar stefnunni.

Þegar við ræðum endurskoðun á gildandi stefnu, sem er ætlað að halda allan tímann, er þetta á annan veginn spurning um lög og formið og hins vegar hvað skynsamlegt sé að gera. Hvaða ráðstafanir á tekju- og gjaldahlið er skynsamlegt að gera með tilliti til fjármálastjórnar og hagstjórnar? Í greinargerð með frumvarpi til laga um opinber fjármál, sem varð að lögum í árslok 2015, kemur t.d. fram að alvarleg skakkaföll í atvinnustarfsemi og ófyrirséður tekjusamdráttur í þjóðarbúinu geti leitt til endurskoðunar á fjármálastefnu, þ.e. greinargerðin gefur meira rými til að horfa til skynseminnar en formbundni lagatextinn í lagagreininni sjálfri. Þetta finnst mér mikilvægt að komi fram í ljósi fyrri umr. um málið, sem var mjög innihaldsrík og mikilvæg í þessu samhengi, þegar við horfum til þess hvenær ástæða er til að endurskoða gildandi stefnu sem á að lifa kjörtímabil ríkisstjórnar. Á þessum tíma, frá því að fjármálaáætlun kemur inn í þingið og þar til við endurskoðum stefnu kemur endurskoðuð stefna í lok maí. Á þeim tíma er búið að ná mjög vænlegum kjarasamningum á vinnumarkaði og heilt flugfélag er farið á hausinn. Það eru skakkaföll í ferðaþjónustu og fækkun farþega og það leiðir af sér áfall fyrir efnahagslífið enda er í hagfræðinni talað um framboðsskell og svo er hér loðnubrestur. Þetta raungerist allt á þessum tíma. Þetta er óvissa í greinargerð með máli sem raungerist á þeim tíma sem við erum með málið í umfjöllun.

Í umfjöllun sinni um stefnuna horfði nefndin mjög til annarra hagspáa og fráviksgreininga og leitaði sérstaklega eftir umsögnum á því sviði. Hún fékk m.a. á sinn fund greiningardeildir banka og horfði til greiningardeilda og svo auðvitað hagspár Seðlabankans umfram þá hagspá Hagstofunnar sem stefnan hvílir á.

Ríkisstjórnin gerir í sinni endurskoðuðu tillögu að stefnu ráð fyrir því að setja inn, sem er nýmæli, svigrúm fyrir frávik í fjármálastefnu, sem er 0,4% af vergri landsframleiðslu. Það er til að mæta að einhverju marki þeirri þróun sem getur orðið sem heitir niðursveifla og við rekumst illa á — fjármálaráð lýsir því svo ágætlega í sínum umsögnum hingað til sem spennitreyju — þegar við erum með fjármálaáætlun sem er í gólfi stefnunnar. Að því leyti til er hér verið að setja meiri sveigjanleika í stefnuna þannig að áætlanir geti betur haldið, þannig að meiri festa sé í áætlunum og aukin sveigja í stefnu. Þetta er mjög mikilvægt, virðulegi forseti, og ég held að það sé mjög til bóta og muni auka festu í fjármálastjórn þegar fram í sækir því að við getum ekki búist við því að hér verði viðvarandi góðæri og uppsveifla. Það er alltaf mikil ábyrgð í því að stjórna við slíkar aðstæður jafnframt en við rekum okkur ekki á þau vandkvæði sem fylgja því í niðursveiflunni. Nú erum við að reka okkur svolítið harkalega á það í því verklagi sem er í lögum um opinber fjármál og kannski sérstaklega í því að við erum bundin í gólfi stefnunnar.

Hv. fjárlaganefnd fjallaði ítarlega um málið og tók mið af öðrum hagspám en Hagstofunnar sem kom á fund fjárlaganefndar með nýja spá í maí. Fjármálaáætlun hvílir á febrúarspánni og því er hér nokkuð mikil sveifla, allt að 3%. Í staðinn fyrir 2,6% hagvöxt er spáð samdrætti upp á 0,2%. Þegar nefndin hefur skoðað fráviksgreiningar og aðrar hagspár er nefndin með breytingartillögu um að auka svigrúmið úr 0,4% af vergri landsframleiðslu í 0,8% og metur það svo að það sé skynsamlegt að gera með tilliti til þeirrar óvissu sem enn er, ef tekið er mið af hagspám, uppi um það að efnahagshorfur geti þróast á verri veg en spá Hagstofunnar gerir ráð fyrir. 0,4% svigrúm er sirka 12 milljarðar og það yrði mjög óheppilegt ef við stæðum í þeim sporum að ári að þurfa að endurskoða stefnuna að nýju. Þess vegna metur meiri hluti hv. fjárlaganefndar það svo, út frá þeim forsendum að efnahagsframvindan geti þróast til verri vegar og ekki mikið svigrúm til að bregðast við án þess að þá fylgi sársaukafullar ráðstafanir og óskynsamlegar sem mögulega ýkja slíka aukna sveiflu niður á við, að hækka beri þetta svigrúm í 0,8% af vergri landsframleiðslu.

Það er mikilvægt að draga fram niðurstöður fjármálaráðs um þessa umfjöllun um formið og forsendur þess að breyta eða endurskoða gildandi stefnu en þá er það að telja að það kemur fram í áliti fjármálaráðs og er sett fram í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar að ráðið telur að tilefni til endurskoðunar og breytingar á gildandi fjármálastefnu séu í samræmi við grunngildi og skilyrði laga um endurskoðun fjármálastefnu. Þetta er mikilvægt, virðulegi forseti, og meiri hluti nefndarinnar dregur það sérstaklega fram.

Jafnframt ætla ég að vísa í nefndarálitið til frekari stuðnings þessari breytingartillögu meiri hlutans þar sem fram kemur, virðulegi forseti, að við núverandi efnahagsaðstæður sé ekki heppilegt að grípa til verulegra aðhaldsaðgerða eða að hækka skatta. Ráðstafanir af því tagi gætu valdið enn frekari samdrætti í hagkerfinu frekar en að stuðla að stöðugleika sem er eitt af grunngildunum sem ber að líta til. Meiri hlutinn tekur heils hugar undir þetta sjónarmið og bendir á að óbreytt fjármálastefna myndi fela í sér talsvert aukið aðhald ríkisfjármála á þessu og næsta ári á viðkvæmum tíma í hagsveiflunni.

Svo að ég fari að ljúka þessari formlega umfjöllun um fjármálastefnuna vil ég tengja þetta þessari umræðu fjármálaráðs um sjálfvirku sveiflujöfnunina. Það virkar þannig að í niðursveiflunni hækka atvinnuleysisbætur og við sjáum það svo glöggt í fjármálaáætluninni og Ábyrgðasjóði launa mögulega. Á tekjuhliðinni dregur hins vegar úr tekjum í ríkissjóð. Þetta köllum við sjálfvirka sveiflujafnara og það er mikilvægt að fara ekki heldur fram úr sér í útgjaldaáformum. Þó að við viljum fara í framkvæmdir og glæða efnahagslífið og gefa því súrefni er mikilvægt að horfa til þessarar sjálfvirku sveiflujöfnunar. Það eru kannski fyrst og fremst tímasetningar aðgerða sem eru erfiðar í þessu efni. Ég vil draga þessa ábendingu fjármálaráðs fram hér og við gerum það í nefndaráliti meiri hluta.

Fjármálastefnan á sín beinu tengsl við fjármálaáætlun sem ég ætla að fjalla nánar um. Breytingartillagan fylgir hér fjármálastefnu og það er mikilvægt að draga fram að með því að gera þessa breytingu erum við í raun að hliðsetja afkomuregluna og með þessu verða árin 2019–2021 undanskilin því ákvæði að heildarjöfnuður yfir fimm ára tímabil verði jákvæður og afkomuregla laganna tekur því aftur gildi frá og með árinu 2022 og þá virkjast að nýju ákvæði um jöfnuð í ríkisfjármálum á fimm ára tímabili.

Það er einnig að segja, virðulegur forseti, að skuldahlutfall ríkissjóðs breytist þar sem nú er fyrirhugað að greiða skuldir heldur hægar niður en áður var ráð fyrir gert. Það hefur síðan áhrif á ríkisfjármálaáætlun. Meiri hlutinn leggur til að þessi tillaga verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef farið yfir, virðulegi forseti, og skýrðar eru frekar í áliti meiri hluta fjárlaganefndar og gerð tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir álit þetta rita eftirtaldir hv. þingmenn, sá er hér stendur, Willum Þór Þórsson, Haraldur Benediktsson, Páll Magnússon, Njáll Trausti Friðbertsson og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.

Eins og lögin mæla fyrir um hvílir fjármálaáætlun á fjármálastefnunni og vík ég nú frekar að nefndaráliti meiri hluta hv. fjárlaganefndar um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2020–2024. Nefndinni bárust 63 umsagnir og fjölmargir fundir fóru fram og einnig bárust nefndinni umsagnir fagnefnda, mjög gagnlegar umsagnir sem nefndin gat haft til hliðsjónar við sína vinnu. Ég hef farið aðeins yfir þær breyttu efnahagsforsendur sem gerðu það að verkum að við endurskoðuðum gildandi stefnu og breytingar nefndarinnar þar að lútandi. Það er auðvitað það sem er fyrst farið yfir í nefndaráliti meiri hlutans varðandi fjármálaáætlun. Þar er þjóðhagsspáin dregin fram og þær breytingar sem eru á spánni og flestallar breytingar í neikvæða átt fyrir 2019 og 2020 og allir helstu þættir landsframleiðslunnar lækka frá febrúarspánni fram í maíspá. Eins og ég sagði lækkar hagvöxtur um 1,9 prósentustig sem þýðir að nú er spáð 0,2% samdrætti.

Það eru þessar breytingar sem hafa raungerst með kjarasamningum, loðnubresti og falli WOW air sem er farið yfir hér og ég ætla ekki að fara nánar yfir. Ég fór yfir þær þegar ég ræddi nefndarálit um fjármálastefnu. Ég vil draga hér fram, virðulegur forseti, að við síðustu fjármálaáætlun stóð nefndin sameiginlega að ábendingum. Það er ánægjulegt að sjá að brugðist hafi verið við fjölmörgum þeirra en nefndin leggur engu að síður áherslu á og ítrekar að taka tillit til þeirra breytinga sem við teljum að eigi eftir að bregðast frekar við og drögum það fram í nefndaráliti meiri hluta.

Að öllum umsögnum ólöstuðum, vil ég segja, vegur umfjöllun fjármálaráðs þungt og er mjög mikilvægur þáttur í allri umfjöllun og vinnu við þessi mál sem eru fjármálastefna og fjármálaáætlun. Við í meiri hluta nefndarinnar drögum fram í okkar nefndaráliti þær gagnlegu ábendingar sem koma frá fjármálaráði og hér erum við í fyrsta skipti með endurskoðaða áætlun ríkisstjórnar við gildandi stefnu. Þar með er fjármálaráð að gefa í fyrsta skipti slíkt álit. Það sem ég vil draga fram hér er varðar stefnuna, því að áætlun hvílir á stefnunni, er að við slíkar aðstæður sem eru uppi í efnahagslífinu reynir verulega á þanþol opinberra fjármála, eins og fjármálaráð orðar það, og við minni hagvöxt reynir á allt aðra þætti hagstjórnar en við höfum horfst í augu við á sl. árum og þá reynir enn frekar á grunngildið varfærni.

Það er því umhugsunarvert, sem ég nefndi áðan og við höfum ítrekað reyndar rætt, að áætlanir hafa alltaf verið settar í gólf afkomumarkmiðastefnu og þannig hafa stjórnvöld skapað þessa spennitreyju sem birtist okkur síðan í því þegar við erum að ráðstafa inn á málefnasviðin og útgjöldin. Það er erfitt að komast út úr því en ég met það svo að þær breytingar sem nefndin gerir á fjármálastefnu séu til bóta í þeim efnum og setji sveigjuna meira í stefnuna og gefi okkur þá ráðrúm til að hafa meiri festu í fjármálaáætlun.

Þá dregur fjármálaráð fram mikilvægi þess að samspil sé á milli ríkisfjármála og peningamála og peningastjórnar. Við drögum fram í nefndaráliti meiri hlutans, og ég legg áherslu á það, að kannski sökum þess að gagnsæi hefur skort í ríkisfjármálin, peningastefnunefnd hefur ekki haft til framtíðar áform um útgjöld og tekjur ríkisfjármála við sínar ákvarðanir en þá er það mjög til bóta. Við sjáum hvernig þessi þríliða efnahagsmála, vinnumarkaður, ríkisfjármál og peningamál — það skiptir máli að þarna sé mikið gagnsæi og áætlanir. Í þessari síðustu ákvörðun peningastefnunefndar sjáum við það vonandi, virðulegi forseti, þó að ekki sé hægt að fullyrða um það, en þó hygg ég að með skynsamlegum kjarasamningum og gagnsæi í ríkisfjármálum séu meiri líkur á að peningastefnan geti tekið mið af slíku, enda sáum við vaxtalækkun í síðustu ákvörðun peningastefnunefndar. Vonandi er það vísbending um að hér sé aukið samspil á milli. Ég held að það sé afar mikilvægt til framtíðar í allri hagstjórn.

Ég vil jafnframt draga það fram hér, af því að nefndin hefur mikið rætt um það í sínum ábendingum og það kemur fram í áliti fjármálaráðs, að mikilvægt er að meta fjárfestingarþörf opinberra aðila og gefa forskrift um það hvernig forgangsröðun þeirra skuli háttað.

Þetta eru þeir meginpunktar sem ég vildi draga fram um álit fjármálaráðs í samhengi við efnahagsframvindu og stefnu og áætlun.

Meiri hluti nefndarinnar gerir fjölmargar breytingar á þeirri áætlun sem liggur fyrir og mælt var fyrir. Í aðdraganda að þeirri umfjöllun, hvaða breytingar nefndin sæi fyrir sér, kölluðum við með góðum stuðningi ritara nefndarinnar eftir upplýsingum og fengum ritara nefndarinnar til að taka saman útgjaldaþróun alveg frá 2011. Þá erum við að horfa á þetta tímabil þar sem við sjáum uppsveiflu frá þeim tíma, þar sem við erum að rísa frá því efnahagshruni sem ég ætla ekki að fara að ræða neitt sérstaklega hér. Við höfum horft á miklu uppsveiflu og mikinn útgjaldavöxt sem margir hv. þingmenn hafa gagnrýnt í ræðum og riti vegna þess að það er mikilvægt grunngildi í lögum um opinber fjármál sem heitir sjálfbærni. Við getum ekki í þessum útgjaldaramma horft bara á viðvarandi vöxt. Mjög athyglisverð tafla er látin fylgja hér með sem fylgiskjal, ágætisgrundvöllur þegar verið er að fjalla um til hvaða breytinga og ráðstafana þarf að grípa. Auðvitað er þetta síðan allt unnið í samvinnu, þetta er fjármálastefna og fjármálaáætlun hæstv. ríkisstjórnar þannig að við þurfum að vinna þetta í nánu samstarfi við fjármálaráðuneytið sem heldur árvekni í verkinu. Það þarf að vera mjög góð samvinna milli nefndar, ekki síst meiri hluta nefndarinnar sem myndar ríkisstjórnarmeirihlutann, og síðan ritara og fjármálaráðuneytis vegna þess að þetta eru miklar töflur og greiningar sem þarf að fara í gegnum.

Nefndin gerir allt að einu, eftir ítarlega greiningarvinnu og umfjöllun, fjölmargar breytingartillögur. Það hefur oft verið gagnrýnt í gegnum tíðina — við höfum reyndar ekki mjög langa sögu í þessu verklagi opinberra fjármála, stefnu og áætlanagerð — að hingað til hefur þingið gert litlar breytingar, eða fjárlaganefnd, á fjármálaáætlun, og engar þrátt fyrir að hafa verið með fjölmargar ábendingar. Ég ætla ekkert að fullyrða um, virðulegi forseti, að það sé endilega akkúrat núna vegna þess að svona miklar hræringar séu í efnahagslífinu. Ég held fyrst og fremst að það sé miklu frekar vegna þess að nefndin er að móta sig inn í nýtt verklag og nýtt umhverfi. Engu að síður er afar mikilvægt að þingið — fagnefndir gáfu mjög gagnlegar umsagnir og hagaðilar þegar þeir komu að málinu — og nefndin horfi til þróunar útgjalda, hvernig tekjur hafa þróast, efnahagsframvindu og efnahagshorfur, efnahagsþróunina þar á undan, og horfi alltaf fast til þess hvaða breytingar eru skynsamlegar við þær aðstæður sem uppi eru. Ég met það svo, virðulegi forseti, að það sé nákvæmlega það sem nefndin hefur gert. Meiri hluti hv. fjárlaganefndar fer síðan ítarlega, í sínu nefndaráliti, í gegnum þær breytingar sem nefndin gerir, leggur þar að auki til grundvallar töflu um þróun útgjalda frá 2018, þ.e. frá því að ríkisstjórn tekur við, og út gildistíma þeirrar áætlunar sem við ræðum hér. Kannski er þar helst til að taka, svo að ég reyni að pakka þessu eitthvað saman, auðvitað er nánari sundurliðun í öllum fylgiskjölum, að meta verður þetta í því samhengi tekjusamdráttar sem verður til við svona snögga niðursveiflu. Það er verulegur tekjusamdráttur og þá er til að taka hvernig við bregðumst við. Hvar eigum við að bera niður? Hér er gildandi áætlun um uppbyggingu á fjölmörgum sviðum, mjög mikilvægum eins og við þekkjum og höfum rætt fyrr í þessum sal, til samgöngumála, til heilbrigðismála, til velferðarmála, til nýsköpunar, til umhverfismála, til loftslagsmála. Svigrúmið er ekki mikið en afkoman þó — það sem er mikilvægast í þessu er að með því að taka afkomuna niður og láta þá almenning, samfélagið, njóta góðs af sterkri stöðu ríkissjóðs, skynsamlegri fjármálastjórn undanfarinna ára þar sem áhersla hefur verið lögð á að greiða niður skuldir og draga úr vaxtabyrði, erum við í færum til að mæta þessari snöggu sveiflu og tryggja að haldið sé í áform, nánast óbreytt, virðulegi forseti, sem er merki um styrk. En það er líka verið að horfa til grunngildis um stöðugleika og það er afar mikilvægt þannig að inn á árið 2020 erum við ekki að sjá miklar breytingar. Það er jafnframt mikilvægt í því samhengi að við erum að fara, rétt eftir að við löbbum út úr þessum þingsal eða ljúkum þingi sem gæti mögulega orðið, að hefja vinnu við fjárlagagerð. Ef miklar breytingar hefðu orðið á fjármálaáætlun inn á árið 2020, svo sjáum við mögulega einhverjar breytingar í hagspá inn í það tímabil sem við erum að fara í vinnu við fjárlagagerð, hefði orðið býsna snúið að koma því öllu heim og saman. Það er því mjög mikilvægt. Ég vil líka segja í því samhengi, ekki bara við fjárlögin, heldur þá staðreynd að á hverju einasta ári, árlega eins og lögin gera ráð fyrir, endurskoðum við áætlun. Þá munum við í hv. fjárlaganefnd og þingið allt og fagnefndir eftir atvikum við næstu gerð fjármálaáætlunar geta farið í gegnum alla liði þegar við erum að horfa frá 2021 og fram úr, tekið til öll ráðuneyti, alla hagaðila og farið yfir stöðuna þá og þá vitum við meira um efnahagsframvinduna sem hefur gerst að þeim tíma liðnum, þessu ári, og getum metið það út frá því og tekið skynsamlegar ákvarðanir að því marki. Hér er verið að ganga á afkomu og nýta svigrúm varasjóðs, þó ekki nema sem nemur lögbundnu marki um 1% af fjárheimildum fjárlaga.

Samhliða breytingum á umfjöllun um málefnasviðin hefur meiri hlutinn tekið saman þær grundvallarupplýsingar sem ég fór yfir, virðulegi forseti. Ég treysti síðan á kollega mína í meiri hluta hv. fjárlaganefndar til að gera grein fyrir þeim breytingum. Auðvitað eru alltaf breytingar sem lagðar eru til af ríkisstjórn og í samráði við ráðherra og koma til nefndarinnar sem vegur og metur og tekur til sín, fjallar um og gerir breytingar á, eins og reyndin er hér. Svo eru hér atriði sem nefndin tók sérstaklega til skoðunar og ég treysti á kollega mína til að fara betur yfir það og taka utan um þau málefnasvið. Við greinum í nefndaráliti hvert málefnasvið fyrir sig. Ég get nefnt það hér að ríkisendurskoðandi gaf út skýrslu um stöðu sýslumannsembætta og við tókum sérstaklega tillit til hennar og álits hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og kynntum okkur greinargerð, áskorun og umsögn sýslumanna og leggjum áherslu á að ráðuneytið fari í vinnu með sýslumönnum um að gera þann rekstur sjálfbæran og endurmeta þær forsendur sem liggja að baki þeim rekstri. Það er mjög ánægjulegt að við getum lagt þar til að stækka útgjaldarammann um 150 milljónir.

Það er mjög ánægjulegt að sjá þróun í nýsköpun, virðulegi forseti, í gegnum tíðina og alveg frá 2011 er málefnasviðið Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar auðvitað framtíðin. Framtíðarhagvöxturinn hvílir ekki síst á menntun, nýsköpun, rannsóknum og þekkingu. Síðan þá hafa stjórnvöld blessunarlega horft til þess.

Hér höfum við verið að fjalla um mál undanfarna daga og vikur, virðulegur forseti, sem snúa að matvælum, heilsu búfjárstofna og lýðheilsu manna. Hér eru tillögur frá meiri hluta nefndarinnar um að setja aukna fjármuni í matvælarannsóknir. Landbúnaðarrannsóknir og hafrannsóknir eru mál sem við höfum rætt sem tengjast fiskeldi og þróun fiskstofna. Þetta tekur nefndin til sín og leggur til aukið fé í þessa sjóði þannig að við erum að gera fjölmargar breytingartillögur. Við erum með sérstakan kafla eftir fund okkar með Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu og hér er að sama skapi ágætisumsögn frá hv. velferðarnefnd í fylgiskjali um þá þjónustu, hjúkrunarheimilin og þá uppbyggingu alla, sem sannarlega er gert ráð fyrir í fjármálaáætlun, mikilli uppbyggingu. Meiri hluti nefndarinnar telur hægt, með góðri samvinnu við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, ráðuneytið og þau sem koma að málum, að nýta fjármuni og húsakost betur og horfa til þess hve ólík rekstrarformin eru. Ég veit að kollegi minn og varaformaður hv. fjárlaganefndar, Haraldur Benediktsson, hefur sett sig mjög vel inn í þau mál og mun fara betur yfir þau hér.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að vera svo langorður en málið hefur lengi verið í umfjöllun og á borði nefndarinnar og þá vill bregða við að um margt sé að tala og mikið, enda málið afar mikilvægt fyrir efnahagslífið og hagkerfið allt. Ég vil í lokin nefna ánægjulega tillögu sem nefndin gerir að samningi heilbrigðisráðherra við Ljósið sem fellur undir málefnasvið 32, Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála. Meiri hlutinn leggur áherslu á að ráðherra geri þjónustusamning við Ljósið og að miðað verði við 150 millj. kr. árlega fjárhæð sem er í samræmi við mat ráðuneytisins á þjónustuþörf og eftir faglega úttekt ráðuneytisins og samtal og gagnkvæman vilja aðila um að ganga frá samningi sem hluta af heilbrigðisþjónustu og mikilvægan og ómissandi þátt í þjónustu við krabbameinsgreinda. Mér þykir sérstaklega vænt um þennan áfanga og breytingartillögu meiri hlutans.

Ég vil í lokin, virðulegur forseti, þakka nefndinni fyrir vinnu við umfjöllun, allri hv. fjárlaganefnd sem vann hér markvisst að því við svolítið sérstakar aðstæður og umbreytingasamar aðstæður, eins og ég kom inn á, og kannski meiri breytingar á skemmri tíma en við höfum oft upplifað og forsendur sem höfðu áhrif á málsmeðferð og bæði stefnu og fjármálaáætlunin. Ég held að þetta hafi með góðu samstarfi, vilja og vinnu og ekki síst góðu vinnuframlagi, að venju, ritara nefndarinnar. Ég vil þakka þeim alveg sérstaklega fyrir góða vinnu og gagnavinnslu. Þá vil ég þakka öðrum hv. fastanefndum fyrir gagnlegar umsagnir við málið. Meiri hlutinn leggur til að tillaga þessi verði samþykkt með þeim breytingum sem eru skýrðar í álitinu og gerð tillaga um í sérstöku þingskjali. Undir nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar um fjármálaáætlun rita sá er hér stendur, Willum Þór Þórsson, Haraldur Benediktsson, Páll Magnússon, Njáll Trausti Friðbertsson og Ólafur Þór Gunnarsson.