149. löggjafarþing — 128. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[10:46]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fram kom í ræðu hv. þingmanns um að endurskoða ætti fjármálaáætlun á hverju ári. Ég hef nefnt áður að ég tel þetta vera ákveðinn misskilning á tilgangi fjármálaáætlunar. Tilgangur fjármálaáætlunar er að leggja fram stefnu stjórnvalda og hvaða aðgerðir eru þar kostnaðarmetnar og forgangsraðað til að ná þeirri stefnu, ná þeim markmiðum. Ekki er sett fram ný stefna á hverju ári í nýrri fjármálaáætlun heldur endurmat á kostnaði og forgangsröðun þeirra aðgerða sem eru lagðar til til að ná stefnunni. Mér dettur í hug að það væri kannski réttnefni að kalla fjármálastefnuna fjármálaramma að einhverju leyti og fjármálaáætlunina fjármálastefnu því að það er í raun og veru stefna stjórnvalda, en ekki er hægt að finna hjólið upp á nýtt á hverju ári fyrir fjármálaáætlun. Hún á að standa út tímabil fjármálaáætlunar frá fyrstu og svo er hún bara kostnaðarmetin á hverju ári í rauninni.

Það sem vantar líka í það ferli sem var nefnt, fjármálaáætlunar- og fjárlagaferlið, eru ársskýrslur ráðherra og langtímaskýrslan sem við höfum ekki enn þá fengið. Hana vantar og það vantar einmitt allt þetta í fjármálaáætlunina og fjárlögin sem gerir ársskýrslu ráðherra mögulega því að án hennar og án markmiðanna, án forgangsröðunar, vitum við ekkert hvort markmiðum stefnu stjórnvalda hefur verið náð nema þau séu sett fram á mjög skýran og skilmerkilegan hátt sem er einmitt ekki gert í fjármálaáætlun.

Mig langar til að fá viðbrögð hv. þingmanns, formanns fjárlaganefndar, um þennan misskilning sem gætir einfaldlega í orðum margra þingmanna, um að það sé bara hægt að endurskoða fjármálaáætlun á hverju ári eins og ekkert sé.