149. löggjafarþing — 128. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[11:03]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að gera að umtalsefni í andsvari mínu orð formanns fjárlaganefndar í Kastljósi í gær þar sem hann hneykslast á mér fyrir að hafa rætt opinberlega breytingartillögur frá ríkisstjórninni á fjármálaáætluninni. Talaði formaðurinn um að trúnaðar hefði verið á þessum tillögum. Ég vil að það komi hér sérstaklega fram að þetta er bara alls ekki rétt og í raun helber ósannindi, enda hefði það verið ótrúlegt, herra forseti, ef trúnaður hefði verið á breytingartillögum ríkisstjórnarinnar á fjármálaáætlun sem snertir sérhvern einstakling í landinu.

Það getur vel verið að formaður fjárlaganefndar vildi að þetta væru einhvers konar leynitillögur, enda ætlaði hann að afgreiða þær á tveimur dögum. Þær voru kynntar á föstudegi fyrir hvítasunnu og planið var að afgreiða þær á þriðjudeginum eftir hvítasunnu. Kannski vissi hann að þær breytingartillögur myndu illa þola skoðun en þetta voru hins vegar, herra forseti, samþykktar tillögur ríkisstjórnar Íslands, kynntar í fjárlaganefnd Alþingis þar sem var óskað eftir að við færum eftir þeim. Þetta eru breytingartillögur ríkisstjórnarinnar og það að koma hér 13 dögum seinna og tala um að einhver trúnaður hafi verið á slíkum tillögum er fáránlegt.

Það var enginn trúnaður á þeim og enginn trúnaður brotinn. Ekki var beðið um neinn trúnað hvað þetta varðar og ég vil að hv. þingmaður, formaður fjárlaganefndar, dragi þessi orð til baka því að mér sárnaði að heyra þetta.

Í þeim breytingartillögum kom nefnilega fram talsverður niðurskurður frá því sem hafði verið tilkynnt og kynnt í fjármálaáætlun þessarar sömu ríkisstjórnar frá því í mars sl. Þetta voru breytingartillögur ríkisstjórnarinnar um að lækka ætti fyrirhuguð fjárframlög til öryrkja, framhaldsskóla, nýsköpunar, umhverfismála, þróunarsamvinnu, sjúkrahúsa og heilsugæslu. Þetta voru aðilarnir sem áttu að taka stærstu skellina í þeim samdrætti sem við stöndum frammi fyrir sé miðað við — ég þarf víst að hjakkast á þessu — (Forseti hringir.) framlagða fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Það sem ég er alltaf að gagnrýna er vilji þessarar ríkisstjórnar til að lækka fjárframlög milli umræðna og í meðförum þingsins, herra forseti.