149. löggjafarþing — 128. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[11:08]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal vera aðeins rólegri í seinna andsvari mínu. Ég tek þessa afsökunarbeiðni gilda. Gott og vel, ég er sammála formanni fjárlaganefndar, góður andi hefur verið í nefndinni og gott samstarf og ég hef álit á formanni fjárlaganefndar, svo að það komi fram og tek þessa afsökunarbeiðni og skýringu góða og gilda.

Ég velti engu að síður fyrir mér, og ég veit að tíminn er oft aðkrepptur fyrir nefndina, hvort við þurfum þá ekki aðeins að hugsa vinnulagið upp á nýtt. Við fengum auðvitað þær athugasemdir að þegar umdeildar breytingartillögur koma, hvort sem þær eru frá ríkisstjórn og síðan frá fjárlaganefnd, hvort hagsmunaaðilar eigi ekki að fá meiri möguleika til að rýna þær tillögur. Öryrkjabandalagið, Þroskahjálp og verkalýðshreyfingin, Samtök atvinnulífsins og fleiri hafa bent á það. Við fáum einhver plögg frá ríkisstjórninni, sem oft eru ekki frábær, sem við þurfum að laga og taka mið af þeim athugasemdum sem við fáum. Ég velti fyrir mér hvort við þyrftum ekki að komast aðeins upp úr því.

Tökum þetta sem dæmi: Hér átti nefnilega að fara að lækka útgjöld ríkisins. Ef við tökum útgjöld utan ramma út fyrir sviga, eins og ríkisstjórnin gerir sjálf í sínum töflum, átti að lækka útgjöldin um 43 milljarða. Það átti að lækka útgjöldin milli umræðna til öryrkja um 8 milljarða. Auðvitað taka hagsmunasamtök öryrkja og við í stjórnarandstöðu það óstinnt upp, en það var sérkennilegt að svona umræða var ekki opnuð meira eins og til að Öryrkjabandalagið, Þroskahjálp og fleiri aðilar fengju ekki frekari tækifæri til að segja einmitt sína skoðun, byggða á þeim gögnum sem voru lögð fyrir nefndina. Þetta eru mikil tíðindi. Auðvitað er sérstaklega ánægjulegt að fjárlaganefnd dregur til baka þennan mikla niðurskurð um 15 milljarða. Til einhvers var nú barist, herra forseti, þegar höggið sem öryrkjar, framhaldsskólar, sjúkrahúsin o.s.frv. varð 15 milljörðum kr. lægra en til stóð. Eftir stendur engu að síður að margt í breytingartillögum nefndarinnar er mjög vont og arfavitlaust og við berjumst gegn því, en við getum (Forseti hringir.) fagnað því sem vel er gert og það er ég að gera hér.