149. löggjafarþing — 128. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[12:07]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var ótrúlegur málflutningur. Hæstv. ráðherra kemur og talar um að hér leiki bara allt í lífsins lukku og að ekkert sé að þessari hagstjórn. Við erum að ganga í gegnum mesta viðsnúning í hagkerfinu í 30 ár að hruninu undanskildu. Afkoman er að minnka um 100 milljarða og bara hjá hinu opinbera eru það 40 milljarðar, ekki bara 2019 heldur út árin. Landsframleiðslan er að dragast saman í fyrsta sinn síðan 2010 og viðsnúningurinn hefur ekki verið eins mikill í 30 ár. Fjármálaráð — ekki ráðherra — bendir sérstaklega í sinni umsögn á veikleika í hagstjórn og skort á vönduðu verklagi. Á ábyrgð hvers er það, frú forseti? Það er á ábyrgð þessa manns, hæstv. fjármálaráðherra, veikleiki í hagstjórn og skortur á vönduðu verklagi. Það sem við erum svo ósátt við í Samfylkingunni er af hverju við þurfum að láta stærstu höggin dynja á þeim sem síst skyldi. Þess vegna leggjum við hér fram breytingartillögur sem ganga þvert á það sem þið leggið til með því að lækka fjárframlög á milli umræðna, það á að vera kristalskýrt.

Eins og ég segi hvet ég hæstv. ráðherra til að lesa sín eigin gögn. Á 17 málefnasviðum af 35, helmingi þeirra, er minna lagt til af opinberum fjármunum 2024 en 2020. Það er ekki hægt að segja að hér sé útgjaldaaukning á öllum sviðum. Það er bara ekki rétt, frú forseti, fyrir utan síðan niðurskurðarbreytingartillögurnar milli umræðna sem gera illt verra. Ég frábið mér málflutning um að hér sé allt í blússandi gangi, enginn niðurskurður, enginn samdráttur milli umræðna eða eitt eða neitt því að það er bara ekki rétt, (Forseti hringir.) frú forseti.