150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[14:20]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem Sundabrautin leysir kannski helst, eða það sem fólk vill alla vega að hún leysi, er ákveðinn umferðarhnútur í Ártúnsbrekku. En það er ekki eini tilgangur Sundabrautarinnar, alls ekki. Það er líka tengingin við höfnina, þannig að allur sá innflutningur sem kemur frá Sundahöfn o.s.frv. þurfi ekki að fara í gegnum þessi sömu sveitarfélög til að komast á flugvöllinn jafnvel eða vestur eða suður á land. Sundabrautin tengir í rauninni fram hjá þessu og er beinni tenging við höfnina. Annar möguleiki væri náttúrlega að færa hana en það er tiltölulega nýbúið að fara í þó nokkrar uppbyggingar þar og skipulag hvað hana varðar og ýmislegt sem hefur þróast þar. Við erum líka í þessum vanda með Reykjavíkurflugvöll.

Það er svo margt, og fyrst við erum byrjuð þar, þá vorum við í vandamálum með sjúkrahúsið okkar líka. Rúm 20 ár liðu áður en ákveðið var að byggja það þarna, en þá kom allt í einu ákvörðun: Heyrðu, nei, nei, það má alls ekki, það verður að gera aðra greiningu. Af því að þessi greining hentaði okkur ekki. Sú greining var sem sagt, ef við ætluðum ekki að byggja spítalann einhvers staðar annars staðar, að byggja hann þá í Fossvogi. Það væri bara hentugast af ýmsum ástæðum sem þar voru listaðar, því að staðsetningin í miðborginni væri bara fáránleg fyrir allar umferðartengingar og allt svoleiðis. En það hentaði ekki og sett var á laggirnar ný nefnd sem átti að fjalla um og taka mið af nálægð við miðbæinn og með hliðsjón af því hvar spítalinn ætti að vera.

Við höfum verið að hjakkast í svona málum í áratugi út af einhvers konar vilja eða kreddum: Nei, ég vil hafa þetta þar sem það er. Ekki breyta neinu. Við erum föst í því íhaldi einhvern veginn og þar af leiðandi gerist ekkert. Það er engin framtíðarhugsun og þá hreyfist ekki neitt. Þetta á við um Sundabrautina, ofanbyggðaveg, Landspítalann, Reykjavíkurflugvöll og allt þetta.