150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[15:21]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alltaf svo skemmtileg umræðan um hagkvæmnina. Við höfum einmitt átt í ýmsum umræðum hér í þinginu um hagkvæmni ýmissa framkvæmda á þessu svæði. Það er tvímælalaust ákveðinn hagræðisvinkill á þessum sex málum. Við höfum fengið í umsögnum og fjallað er um það í áliti meiri hluta að verkefni í samvinnufyrirkomulaginu séu að jafnaði 20–30% dýrari þegar fyrir notendur þegar allt kemur til alls. Það er alla jafna þannig því að þetta dreifist nokkuð vel um landið, alla vega um Suðurlandið og fyrir íbúa þar.

Ég velti fyrir mér í samhengi við önnur mál þar sem mikið hefur verið rætt um hagkvæmni hvernig við sem fjárveitingavald getum í rauninni sætt okkur við að fara í þennan gír og í þessa átt með samvinnuverkefni, þessa 20–30% dýrari framkvæmdir en við getum náð með öðrum leiðum. Við höfum alla vega ekki fyrir framan okkur í þessu frumvarpi útskýringu á því af hverju samvinnuleiðin í þessum verkefnum væri ódýrari en aðrir kostir sem okkur bjóðast.

Ég vildi velta því aðeins fyrir mér með hv. þingmanni hvernig stendur á því að við fáum ekki þennan valmöguleika og sem fjárveitingavald aðgengi að þeim greiningum sem ættu að liggja fyrir ef við eigum að taka góða ákvörðun um það hvernig á að fara með almannafé.