131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

592. mál
[16:35]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 1293 frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um Neytendastofu og talsmann neytenda.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn fjölda gesta sem getið er um í nefndarálitinu.

Fjallað var um málið samhliða máli nr. 590, frumvarpi til samkeppnislaga, og máli 591, frumvarpi til laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, sem við ræddum rétt áðan á þessum fundi.

Í frumvarpinu er annars vegar gert ráð fyrir að stofnsett verði ný stofnun, Neytendastofa, og auk þess að við hana starfi talsmaður neytenda. Í nefndarálitinu er farið í gegnum það hvernig Neytendastofa og talsmaður neytenda vinna saman. Talsmaður neytenda mun geta tekið mál til meðferðar eftir kvörtun eða að eigin frumkvæði en honum er ekki ætlað að taka stjórnvaldsákvarðanir í verkefnum sem falin eru stjórnvöldum samkvæmt lögum né heldur er honum ætlað að leysa úr ágreiningi kaupenda eða seljenda um einstök atriði eða tiltekin kaup. Talsmanni neytenda er frekar ætlað að taka við erindum frá neytendum, gefa út álitsgerðir og hafa frumkvæði að úrbótum og annast þannig hagsmunagæslu fyrir neytendur.

Meiri hlutinn leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:

1. Krafa um að forstjóri Neytendastofu og talsmaður neytenda hafi háskólapróf verði felld brott.

2. Kveðið verði á um rétt talsmanns neytenda til að gera þjónustusamning við Neytendastofu um undirbúning mála fyrir embættið.

3. Ráðherra verði heimilað að skipa tveggja manna undirbúningsnefnd til að undirbúa stofnun Neytendastofu í tengslum við niðurlagningu Löggildingarstofu og Samkeppnisstofnunar.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í þingskjali 1294.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Dagný Jónsdóttir, Birgir Ármannsson, Una María Óskarsdóttir og Gunnar Birgisson.

Í umræðunni hefur verið rætt dálítið um Löggildingarstofu og hvers vegna hún er inni í Neytendastofu, en sú umræða byggist sennilega á því að menn eru orðnir svo vanir því að mál og vog séu í lagi fyrir tilstuðlan Löggildingarstofu að þeir eru búnir að gleyma því sem einu sinni var aðalneytendamálið, þ.e. að vog og mál væru í lagi. Það var það sem menn gagnrýndu mest í einokunarverslun Dana og þess vegna er Löggildingarstofa að sjálfsögðu eitt aðalneytendamálið og heyrir mjög rökrétt undir Neytendastofu því að hún gætir þess að þegar ég kaupi eitt kíló af sykri í verslun þá sé það líka eitt kíló af sykri.