131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[20:32]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður rekur málið ansi stutt aftur í tímann. Það vill nú svo til að ég hef fylgst með almannatryggingunum mjög lengi og þekki mörg dæmi um það að í reglugerð hafi réttindi verið skert, þar vil ég t.d. nefna lyfjareglugerðir, þar sem greiðsluþátttaka almannatrygginganna í lyfjakostnaði hefur iðulega verið skert í gegnum reglugerðarbreytingu.

Ég nefndi einnig bifreiðakaupastyrkina enda er svo, og hefur það verið svo undanfarið í tíð þessarar ríkisstjórnar og ríkisstjórna Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, að eftir kosningar hafa greiðslur samkvæmt reglugerðinni verið skertar en síðan hefur þetta aðeins lagast. Þegar komið er að kosningum þá er bætt í en síðan aftur eftir kosningar hefur verið aftur skorið niður og reglugerð breytt, en síðan þegar fer að nálgast aftur kosningar þá hefur þetta lagast. Þetta hefur verið svona. Ef hv. þingmaður vill koma í umræður um það þá get ég alveg tínt til allar þessar reglur og hef meira að segja margar hverjar mjög ljósar í hugskoti mínu. Ég iðulega farið í gegnum þessar breytingar og get rakið það lengra aftur í tímann en hv. þingmaður hefur setið hér á þingi og fylgst með þessum málum.

Ég verð að mótmæla þessu. Þótt þetta hafi lagast eitthvað í seinni tíð, enda hefur verið góðæri í landinu, þá segir reynslan mér og öðrum, svo sem lífeyrisþegum, öldruðum og öryrkjum, að þetta sé síðri réttur vegna þess að reglugerðum er iðulega breytt eftir því hvernig stendur í bólið hjá hverri ríkisstjórn fyrir sig.