136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:03]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstvirtur forseti. Ég verð að játa að ég sé enga þörf fyrir að valdið til þess að synja lögum staðfestingar og vísa máli til þjóðar verði áfram fyrir hendi ef jafnvíðtækar heimildir yrðu settar í stjórnarskrá til þjóðaratkvæðagreiðslu og frumvarpið gerir ráð fyrir og eins og breytingartillaga hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar gerir ráð fyrir. Ef mál eru umdeild og eru þannig að það er hiti í samfélaginu um þau og þau eru mikil ágreiningsefni tel ég alveg fullvíst að annaðhvort þriðjungur þingsins eða þá tiltekið hlutfall almennings í landinu eða kjósenda mundi fara fram á að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram.

Þá er það mín skoðun að það sé heppilegra að halda forseta Íslands utan við atburðarás af þessu tagi þannig að forsetinn dragist síður inn í pólitískar deilur og geti sinnt hlutverki sínu sem sameiningartákn þjóðarinnar án þess að blandast inn í pólitísk ágreiningsefni.