136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda áfram lengi þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað um fundarstjórn forseta. Ég ítreka bara það sem ég hef áður sagt um það mál.

Ég vildi líka velta upp þeirri spurningu til hv. þingmanna ríkisstjórnarflokkanna og Framsóknarflokksins hvort þeir telji að það sé brýnna mál fyrir kjósendur þeirra, fólkið sem þeir eru umbjóðendur fyrir, að fara í breytingar á stjórnarskránni eða að afgreiða mál eins og við erum hér að tala um að fá inn á dagskrá, t.d. um greiðsluaðlögun heimilanna, vaxtabætur og síðan mál sem eru til þess fallin að auka atvinnustarfsemi í landinu eins og um álver í Helguvík.

Ég velti því fyrir mér, og mér finnst að hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna og Framsóknarflokksins ættu líka að velta því fyrir sér, hvort er mikilvægara fyrir það fólk sem þeir eru kjörnir fulltrúar fyrir að fá úrlausn þessara mála sem fyrst, eins og við sjálfstæðismenn höfum lagt upp með, eða að bíða von úr viti og í óvissu um afdrif málsins?

Það hefur alltaf legið fyrir að mikið yrði talað um stjórnarskrármálið og ég hef áður sagt hér úr þessum ræðustól að það sé eðlilegt að mikið sé rætt um stjórnarskrármálið. Það væri mjög óeðlilegt ef ekki yrðu miklar umræður um stjórnarskrárbreytingar sem eru veigamiklar og hafa mikla þýðingu, a.m.k. svo mikla þýðingu að flutningsmenn málsins og stuðningsmenn þess leggja ofurkapp á að koma því hér í gegnum þingið.

Ég bið því hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna og Framsóknarflokksins að hugleiða það hvort snýr nær umbjóðendum þeirra, hvort hefur meiri áhrif á hagsmuni þess fólks sem þeir eru kosnir fyrir, þau mál sem ég nefndi, og við sjálfstæðismenn höfum viljað koma á dagskrá, eða þetta stjórnarskrármál. Ég bið þá að hugleiða það. Það er þeirra ákvörðun, það er ákvörðun forseta og þess meiri hluta sem hefur myndast hér í þinginu um stjórnarskrármálið, það er ákvörðun þessa fólks að þingið er hér fast í umræðum um stjórnarskrármál en ekki í umræðum um brýnni hagsmunamál heimilanna í landinu. Það er þeirra ákvörðun. Það er á þeirra ábyrgð. Það er alveg skýrt.

Herra forseti. Ég vildi líka nefna það í þessu sambandi að það er óheppilegt hversu lítinn þátt hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna hafa tekið í þessari umræðu. Það væri fengur að því ef þeir væru virkari í þessari umræðu og gætu þar með útskýrt fyrir þingheimi hvernig þeir sjá fyrir sér útfærslu þeirra mála sem hér liggja fyrir, t.d. varðandi breytingartillögurnar sem lagðar hafa verið fyrir þingið eftir meðferð málsins í sérnefnd um stjórnarskrármál.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kallaði hér fram í að þeir kæmust ekki að. Í morgun og í gær var vísað til þess ákvæðis í þingsköpum sem heimilar forseta að breyta röð ræðumanna þannig að ólík sjónarmið komist að. Ég er sannfærður um að forseti tæki óskum þingmanna stjórnarflokkanna vel ef þeir vildu komast að.

Hvað veldur því að hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna vilja ekki taka þátt í þessari umræðu nema með örstuttum andsvörum nokkrum sinnum á dag? Hvað veldur því? Eru þeir ekki sannfærðir um málstaðinn? Finnst þeim þeir vera á hálu svelli í þessu máli? Eru þeir ekki sannfærðir um að sá málstaður sem þeir hafa að verja í þessu máli sé góður? Þeir hafa fulla möguleika á því að koma hingað og útskýra fyrir þingi og þjóð hvers vegna þeir telja þessar breytingar svona brýnar. Það væri fengur að því ef þeir vildu gera það. Það væri fengur að því ef þeir vildu útskýra breytingartillögurnar því að ég verð að játa það, og vísa til þess sem ég hef áður sagt í þessum ræðustól, að breytingartillögurnar og þær hugmyndir sem birtast í nefndaráliti meiri hlutans í sérnefndinni vekja að mörgu leyti miklu fleiri spurningar en þær svara.

Ég vísa enn til þess sem sagt er um kosningar til stjórnlagaþings. Einhverja hugmynd hafa meirihlutamenn í nefndinni væntanlega mótað sér um það hvernig ætti að kjósa til stjórnlagaþings. Þeir reyna að koma orðum að því í nefndaráliti en útkoman er þannig að enginn sem ég þekki hefur skilið það orðalag. Ég hef margoft spurt um það hér í þingsalnum. Ég hef margoft spurt um það hvernig eigi að túlka þetta. Enginn hefur gert tilraun til að svara mér.

Það er ekki einsdæmi. Það er mjög margt í þessari umræðu sem ekki hefur verið gerð tilraun til að svara. Það á bæði við um ræður okkar sjálfstæðismanna og reyndar afar góðar ræður hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, sem hefur flutt hér tvær mjög málefnalegar og góðar ræður, þar sem fram kemur hörð andstaða við það að frumvarpið nái fram að ganga. Honum er ekki svarað í neinu. Það er ekki bara vegna þess að hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna og Framsóknarflokksins telji okkur þingmenn Sjálfstæðisflokksins ómerkilega að þeir sjá ekki ástæðu til að eiga orðastað við okkur. Það sama á við um hv. þm. Kristin H. Gunnarsson.

Ég velti því fyrir mér hvort enginn í ríkisstjórnarliðinu vill svara þeim sjónarmiðum sem hv. þm. Samfylkingarinnar, Kristrún Heimisdóttir varaþingmaður, hefur viðrað á opinberum vettvangi og vitnað hefur verið hér til. Í útvarpsþætti fyrir níu dögum lýsti hv. þingmaður þessari tillögu til stjórnarskrárbreytinga á þann veg að menn væru að leita skyndilausna. Hún sagði orðrétt, með leyfi forseta:

„Mér finnst þetta hvort tveggja skorta. Og í staðinn eru menn einhvern veginn að leita skyndilausna, að einhverju næstum því svona eins og, næstum því svona eins og sagt er í, ég veit ekki hvort ég á að segja það, en það er svona skyndilausn sem að, af því að menn vilja næstum því halda áfram í pínulitlu æði. Alveg eins og útrásaræðið var æði og peningaæðið var æði, þá er kannski komið nýtt æði.“

Þar er hún að vísa til æsingsins við að koma þessu máli hér í gegn. Þetta er þingmaður úr stjórnarflokki. Ég hef ekki heyrt neinn þingmann Samfylkingarinnar gera tilraun til þess að svara þessum sjónarmiðum.

Kristrún lýsir síðar í viðtalinu því viðhorfi sínu að aðstæður séu óheppilegar til þess að breyta stjórnarskránni nú. Hún segir, með leyfi forseta:

„Þannig að mér finnst í sjálfu sér, þó að ég sé almennt þeirrar skoðunar að það sem sagt eigi, það kunni að vera núna óheppilegar aðstæður til þess að breyta stjórnarskránni, að þá finnst mér sérstök rök gilda um auðlindaákvæðið.“

Hún tekur sem sagt auðlindaákvæðið eitt út úr, telur að það sé fullrætt. Um alla aðra þætti málsins gildir öðru máli og hv. þm. Kristrún Heimisdóttir telur að aðstæður séu óheppilegar til að breyta stjórnarskrá.

Um stjórnlagaþingið segir hún, með leyfi forseta:

„Þegar kemur svo að stjórnlagaþinginu að þá auðvitað bara vísa ég til þess sem ég sagði áðan, um þá leið sem að ég héldi að skipti mestu máli, … , að opna fjármuni til þess að rita, rannsaka, skrifa, búa til vefsíður og kenna og ræða saman.“

Síðar segir hv. þingmaður Kristrún Heimisdóttir, með leyfi forseta:

„Það sem að blasir náttúrlega við manni þegar maður sá þessa hugmynd um að kjósa, fyrst var nú talað um að þeir yrðu 63, sama tala og þingmannafjöldinn. Síðan var einhvern veginn til þess að gera þetta aðeins … minna, þá var talað um 41. Auðvitað er það vandinn. Vandinn er sá að í staðinn fyrir að hugsa nýtt og brjóta upp og læra af veikleikum okkar að þá er einhvern veginn bara verið að búa til nýja birtingarmynd Alþingis. Einhvers konar afrit af Alþingi. Og þetta, það er verið að tala um að þetta sé kosning, þannig að þetta er þá fulltrúalýðræði einhvers konar sem á að gilda, þannig að menn eiga bara að treysta vini.“ — og svo ræðir hún um einhverja spurningaþætti í sjónvarpinu.

Í lok þessarar tilvitnunar, þessa kafla viðtalsins, sem ég get útvegað hv. þingmönnum ef þeir vilja, segir, með leyfi forseta:

„Sem sagt við erum að, í staðinn fyrir að endurnýja stjórnmálahefðina, þá óttast ég að við séum að falla í þá gryfju að beita neikvæðum eiginleikum okkar stjórnmálahefðar, eða veikleikum, til þess að skapa eitthvað sem ég óttast mjög að muni ekki muni skila miklum breytingum eða árangri, þ.e. þetta stjórnlagaþing, ef það verður gert með þessum hætti.“

Þetta eru mjög alvarlegar athugasemdir frá hv. þm. Kristrúnu Heimisdóttur sem fyrir utan að vera sitjandi þingmaður Samfylkingarinnar er lögfræðingur og hefur fjallað um stjórnarskipunarmál í ræðu og riti í mörg ár, skrifað tímaritsgreinar, kennt námskeið á þessu sviði og sat fyrir hönd Samfylkingarinnar í stjórnarskrárnefnd 2005–2007.

Ég sakna þess að hér í salnum sé enginn þingmaður Samfylkingarinnar nema hæstv. forseti, enginn þingmaður til þess að tjá sig um orð þessa samþingsmanns síns, flokkssystur sinnar sem hefur hér fram að færa alveg sömu varnaðarorð og efasemdir og við sjálfstæðismenn höfum haldið fram í þessari umræðu. Það er þess vegna mjög óheiðarlegt af hv. þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna og Framsóknarflokksins, (Forseti hringir.) sem mæla með þessu máli, að halda því fram að andstaða við þetta mál (Forseti hringir.) sé eingöngu bundin við þingmenn Sjálfstæðisflokksins.