149. löggjafarþing — 128. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[10:51]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Næst er það spennitreyjan sem var alltaf í gólfi stefnunnar. Ég vil meina að hún sé það enn þá. Fjármálaáætlunin er með sömu viðmið og breytt fjármálastefna. Hún tekur nefnilega ekki tillit til veikleika í stefnu og áætlunum stjórnvalda þó að hún taki vissulega tillit til þess ef hagspár standast ekki, þannig að með tilliti til hagspáa er stefnan ekki lengur með spennitreyju en með tilliti til veikleika í stefnu og áætlunum stjórnvalda er hún enn þá í spennitreyju því að ef hagspár standast er hún enn þá algjörlega í gólfinu. Það er enn þá spennitreyja þar.

Það sem vantar einmitt þar er það sem við töluðum um í fyrra andsvari, kostnaðaráætlun og forgangsröðunina vantar. Þó að hagspár standist höfum við í rauninni ekki hugmynd um hvort var farið í öll verkefni eða hvort þau stóðust tímaáætlun eða neitt af því að það er allt of mikill sveigjanleiki gefinn til stjórnvalda frá þinginu, frá fjárveitingavaldinu um hvernig á að ná þeim markmiðum sem eru sett fram á allt of óljósan hátt þannig að við getum ekki komist að því í ársskýrslum ráðherra hvort verið sé að standast þær kröfur sem voru settar fram héðan frá þinginu. Það er það sem vantar.

Svigrúmið er skilyrt um einmitt verri hagvöxt en spár gera ráð fyrir af því að óvissusvigrúmið er bundið við það að þá er enn þá samt spennitreyja í fjármálastefnunni miðað við þau gólf sem fjármálaáætlun setur fram.