149. löggjafarþing — 128. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[10:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir seinna andsvarið sem er að sama skapi mjög gott og er eiginlega lykilatriðið í þessu og auðvitað kjarninn í ræðu minni er varðar breytingu á fjármálastefnu. Við getum kannski orðað það nett, og það er hárrétt sem hv. þingmaður bendir á, að þegar við erum búin að vera í gólfi stefnunnar er erfitt að komast þaðan. Það er erfitt að losa um böndin á spennitreyjunni og það er m.a. þess vegna sem meiri hluti fjárlaganefndar gerir tillögu um að auka svigrúmið.

Það er mikilvægt til lengri tíma litið að stjórnvöld horfi til þess að hafa svigrúm, hafa sveigju í stefnunni og verði skýr í afkomumarkmiðum sínum og gefi svigrúmið, í plús skulum við bara orða það, í afkomunni og hafi síðan þegar efnahagshorfur versna sveigju og þá möguleikann, ef það fer þangað, tímabundið til að reka ríkissjóð í halla þannig að það þurfi ekki samfélagsins vegna að fara í sársaukafullar ráðstafanir, sér í lagi gegn áformum um uppbyggingu á þeim mikilvægu grunnkerfum sem við erum alltaf að stefna á að hlúa að. Þetta snýr að því. Þetta eru nokkur grunnkerfi sem við erum meira og minna að fjármagna. 6 af hverjum 10 kr. fara í velferð, það er bara staðreynd. Tilfærslukerfin taka mjög mikið, heilbrigðismálin, menntakerfin. Við viljum hlúa að þeim kerfum en við verðum á sama tíma að hafa þessa sveigju í stefnunni til að áætlanir, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, standi og þar eigum við þá að vera svolítið stíf á markmiðum.