149. löggjafarþing — 128. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[10:55]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni, formanni fjárlaganefndar, yfirferðina og ræðuna. Ég vil nota þetta tækifæri til að beina fyrirspurn til hv. þingmanns varðandi verklagið og vinnuna á síðustu metrunum í þessum efnum. Ég vil því spyrja hv. þingmann: Má vænta þess á næstunni að meiri hluti fjárlaganefndar í framtíðinni leggi fram breytingartillögur sínar á stuttum tíma og afgreiði á sama tíma úr nefndinni án þess að nokkur sem á fundinum sat ætti þess nokkra möguleika að lesa nefndarálitið, hvað þá að gaumgæfa það? Auk þess fylgdi á sama fundi tveggja blaðsíðna bréf frá fjármálaráðuneytinu og sjö fylgiskjöl, þéttprentuð smáum tölum án viðhlítandi samtalna. Nú veit ég, herra forseti, að hv. formaður er mjög öflugur talnagreinandi, en er hann ekki sammála mér í því að hvorugur okkar gæti greint og skilið það efni sem lagt var fram á fundinum á þeim tíma sem meiri hlutinn ráðstafaði til minni hlutans? Má ég þá ganga út frá því sem loforði frá hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar að svona vinnubrögð verði ekki viðhöfð aftur af hálfu meiri hlutans og undir hans stjórn? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)