149. löggjafarþing — 128. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[10:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir spurningu sem snýr að verklagi og vinnu nefndarinnar. Ég gerði verklagið kannski ekki að sérstöku umtalsefni í ræðu minni en dró hins vegar fram þessa óvenjulegu stöðu í úrvinnslu þessara beggja mála, fjármálastefnu og fjármálaáætlunar, og allt það sem gerist á þeim tíma frá því að fjármálaáætlun kemur til nefndarinnar í mars. Sú óvissa sem raungerist á þeim tíma, kjaramálin, og það allt sem ég rakti, áföll í efnahagslífinu, gerir það auðvitað að verkum að það þarf að endurreikna. Skoða þarf allar ráðstafanir á gjalda- og tekjuhlið og við þurfum svolítið að treysta á ráðuneytið í reikniverkinu. Við þekkjum það að þó að við séum með tvo mjög öfluga ritara sem hafa unnið þrekvirki er staðreyndin sú að í umfjöllun nefndarinnar um þær breytingartillögur frá því sem fyrstu hugmyndir um ráðstafanir koma er vika. Endurskoðuð fjármálastefna sem fjármálaáætlun hvílir á kemur inn fyrstu viku í júní. Daginn áður kemur hún til nefndar sem við eigum eftir að senda til umsagnar.

Ég skal bara viðurkenna það fyrir hv. þingmanni, virðulegi forseti, að auðvitað er ekki æskilegt að hafa svo þröngan tímaramma fyrir nefnd í jafn mikilvægu máli. Það er þannig en stundum þarf að bretta upp ermar og vinna eins og hægt er. Það verklag hefur hins vegar verið viðhaft í hv. fjárlaganefnd að tillögur, til að mynda þegar þær koma úr ráðuneyti, eru birtar allri nefndinni þegar þær koma fyrir nefndina og (Forseti hringir.) tímaramminn var bara þetta þröngur.