149. löggjafarþing — 128. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[10:59]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og heyri að hann er sammála mér í meginatriðum hvað þetta varðar. En rétt er að benda á það að þegar tillögurnar koma frá ráðuneytinu komu skilaboð fram um það að hugsanlega ætti eftir að breyta einhverju í þeim efnum þannig að við fengum óskaplega lítið ráðrúm til að fara yfir það.

Víkjum aðeins nánar að þessu. Fyrir kl. 10 í morgun bar minni hlutanum að skila nefndaráliti þar sem hann hafði m.a. farið yfir fyrrgreind gögn sem ég hef nefnt, greint þau og skilið á sama tíma og þingfundur stóð til klukkan að verða 2 í nótt. Þá vil ég spyrja hv. þingmann, formann fjárlaganefndar, hvort hann telji að minni hluti fjárlaganefndar geti við þessar aðstæður skilað faglegri vinnu eins og til var ætlast. Verður það e.t.v. ekki þannig að hann muni þá beita sér fyrir því að þessi staða komi ekki upp aftur? Ég held að það sé afar mikilvægt, herra forseti, þessi vinnubrögð og þessi tímarammi er náttúrlega fyrir neðan allar hellur. Það verður bara að segjast eins og er, þetta er grundvallarplagg ríkisstjórnarinnar og að ætlast til þess að maður geti rýnt ofan í þetta á þessum skamma tíma og skilað frá sér nefndaráliti er með ólíkindum. Ég vil bara segja það, herra forseti.

Þrátt fyrir þetta vil ég taka sérstaklega fram og undirstrika það að ég þakka formanni fjárlaganefndar fyrir farsæla fundarstjórn og góð samskipti.