149. löggjafarþing — 128. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[11:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni, hv. nefndarmanni fjárlaganefndar, og tækifærið til að fara aðeins yfir þetta. Í umræddu viðtali, þar sem mér þykir miður ef hv. þingmanni þykir ég hafa gengið of langt, og þá bið ég afsökunar á því, sagði ég ekki að það væri trúnaður á gögnunum. Ég sagði það ekki. Ég sagði að hv. þingmaður hefði gengið á trúnað nefndarinnar. Það snýr að trausti. Það snýr að því að það verklag sem ég hef haft og viðhaft sem formaður hv. fjárlaganefndar er að birta gögn allri nefndinni þegar þau koma inn.

Það má alveg íhuga það verklag að meiri hlutinn fái aðeins að rýna gögnin frá sinni ríkisstjórn áður en hún leggur það fyrir alla nefndina. Ég hef ekki haft það verklag á og þá finnst manni kannski gengið á traust af því að málið á eftir að vinna. Það á eftir að rýna gögnin og mér finnst hv. þingmaður að einhverju marki gera lítið úr vinnu hv. fjárlaganefndar. Það er það sem ég átti við þegar ég talaði um að hann gengi á trúnað nefndar. Mér þykir mjög miður ef hv. þingmaður — það er hárrétt sem hv. þingmaður sagði, virðulegur forseti, svo því sé haldið til haga, það er auðvitað ekki trúnaður á þessum gögnum. Ég er að tala um traust til nefndar og þá vinnu sem nefndin er að vinna og hingað til í mjög góðu samstarfi. Ég get ekki sagt annað um framgöngu hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar í þeirri vinnu allri en að hún hafi bara verið mjög góð. Mér þykir mjög miður — þetta ber skugga á hana en ég get alveg staðið hér og beðið afsökunar á því ef ég hef gengið of langt með þessa skoðun mína gagnvart virðingu fyrir störfum nefndarinnar.