149. löggjafarþing — 128. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[12:14]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Maður fyllist eiginlega depurð og svartnættið grípur einhvern veginn huga manns þegar maður situr undir ræðu hv. þingmanns. Ég skil núna af hverju hv. þingmaður ákvað að bregðast trausti samnefndarmanna sinna í fjárlaganefnd og nýta sér upplýsingar í pólitískum tilgangi, til að vekja upp ótta hjá þeim sem síst á að gera — hjá öldruðum og öryrkjum. Það er ekki til að hreykja sér af og þegar hv. þingmaður heldur því fram að hann hafi ekki gefið í skyn að hér sé einhver blóðugur niðurskurður vil ég bara benda hv. þingmanni á hvernig hann skrifaði á fésbók sína í gær það sem hann segir: Mismunurinn er 15 milljarða minni niðurskurður sem öryrkjar, sjúkrahús, framhaldsskólar o.s.frv. — Hér er allt gert til þess að vekja upp ótta og áhyggjur hjá almenningi og ekki síst þeim sem hv. þingmaður talar hér fjálglega um að hann beri hvað mest fyrir brjósti. Það er ekki stórmannlegt, allt til að fella pólitískar keilur, allt til að gefa í skyn að það sem verið er að gera sé þvert á það sem í raun er að gerast. Hér er verið að auka útgjöld ríkisins til velferðarmála mjög mikið. Hér er ekki niðurskurður en það er kannski rétt að útgjaldaaukningin er ekki jafn mikil og áætlað var. Hvernig eiga menn enda að bregðast við af skynsemi þegar tekjur dragast saman?