150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[12:39]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir andsvarið. Við erum við að fjalla hér um sex verkefni sem eru öll, eins og fram hefur komið, mjög ólík. Veggjöld eru lögð á þar sem þau eru talin vera fýsileg. Þá er þetta auðvitað myljandi bisness og þess vegna sækja fjárfestar auðvitað í svona verkefni.

Vegna hvers er hagkvæmasta leiðin ekki valin? Við höfum auðvitað þau rök að það sé erfitt að gera þetta af formlegum lagalegum ástæðum vegna þess að lögin um opinber fjármál séu einhver hindrun og við megum ekki skuldsetja ríkissjóð um of. En ég tel að það séu bara ekki nægilega sterk rök. Ef það liggur á borðinu að við erum að velja dýrari kosti — og það hafa í raun og veru samgönguráðuneytið og fjármálaráðuneytið staðfest, þeim er það ljóst að við erum að velja dýrari kosti — hvernig ætlum við að réttlæta það gagnvart skattgreiðendum? Mér finnst það ekki hægt. Ég nefndi hér í ræðu minni að stjórnmál væru list hins mögulega. Þarna vantar hugmyndaflug eða úrræði. Það þarf ekki mikið hugmyndaflug. En þarna þarf bara úrræði. Þau eru til. Óháð allri gjaldtöku tel ég hægt að stofna opinber félög eða félög til hliðar en þannig að Vegagerðin bæri auðvitað hitann og þungann af verkefninu að öllu leyti.