150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

framhald þingstarfa.

[13:55]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta er nú orðið ágætt hjá okkur hérna en ég verð samt að ítreka það og segja: Ég trúi því ekki að það sé almennur vilji þingmanna að af þeim sé tekinn réttur til að koma með mál til málsmeðferðar í þingsal, að það sé skilyrt að þingmaður geti ekki, hvort sem hann er í stjórn eða stjórnarandstöðu, komið með einhverjar tillögur. Eiga þá stjórnarandstöðuþingmenn ekki að fá að koma með frávísunartillögu á mál ríkisstjórnarinnar? Er það eitthvað sem við viljum semja um? (Gripið fram í: Þið fellið það bara.) Þetta snýst ekki bara um að samþykkja eða fella. Þetta snýst um það að það á ekki og ég get ekki samið fyrir hönd míns þingflokks og sagt við hann: Nei, þið megið ekki nýta þennan rétt. Það er ekki sanngjarnt og ég trúi því ekki að það sé eitthvað sem menn vilji. Og ég hef bara heyrt það. Ég hef heyrt það á vettvangi þingflokksformanna þar sem (Forseti hringir.) þeir hafa ekki haft umboð til að semja ýmislegt af sínum þingmönnum.