150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[14:22]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég get ekki annað en verið innilega sammála honum að mörgu leyti. Ef við tökum bara Sundabrautina. Vöruflutningar eru frá skipum út á land og aftur til baka, en svo hefur flutningur á ferskum fiski stóraukist, sem þarf að fara í flug frá Keflavík. Þá kæmi hann um Sundabrautina og í gegnum öll sveitarfélögin í hægagangi, en sennilega reyndu menn að vera skynsamir og flytja þetta á næturnar. En það breytir því ekki, við erum að leysa, myndi ég segja, þessi mál á rangan hátt.

En mig langar eiginlega að tala um annað. Það eru þessi sex verkefni. Telur hv. þingmaður að þeim sé rétt forgangsraðað, og ef ekki, hvernig hefði hann viljað sjá þeim forgangsraðað og hver væru forgangsverkefnin? Til dæmis í því samhengi sem við erum búin að vera brambolta með undanfarna áratugi, þ.e. þessar einbreiðu brýr, sem eru rosalegar slysagildrur. Þær eru enn þá yfir 30 og virðist ganga hægt að fækka þeim. Ég heyrði einhvern vera með þá draumóra að það yrðu teknar 28 eða nálægt 30 á þessari vegáætlun, en ég hef ekki séð það og ég kaupi það ekki. Við ættum að einbeita okkur að slysagildrunum.

Svo er annað sem ég hef áhyggjur af. Við höfum séð, og ég varð mest hneykslaður á einum vegarkafla norður á Ströndum, þennan bútasaum sem við höfum alltaf verið með. Stórkostlegur kostnaður. Ef við myndum bjóða þetta allt út í einum pakka, ríkið tæki ábyrgðina, tæki lánið og svo myndum við fara í útboð og það yrði að ljúka þessu bara í einum pakka, þá fengjum við hagstæðustu útgáfuna. Hvernig litist hv. þingmanni á það?