150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[14:51]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Mig langar til að ræða örlítið um þetta mál, kannski ekki endilega út frá þeim verkefnum sem málið fjallar um, þó svo að ég muni koma inn á þau aðeins á eftir, heldur fyrst og fremst út frá þeirri leið sem farin er. Eins og kemur fram í frumvarpinu snýst þetta um svokallaða, með leyfi forseta, „Public-Private Partnership“-leið sem hefur verið þýdd á ýmsa vegu á íslensku. Stundum er talað um samvinnuverkefni eða eitthvað því um líkt. Hugtökin einkaframkvæmd eða verkefnafjármögnun eru líka notuð. Í grunninn snýst þetta um það að í stað þess að ríkið standi að því að fjármagna og framkvæma verkefni með því að ráða til sín verktaka sem vinna verkið fyrir hönd ríkisins, úthýsir það ekki bara framkvæmdinni heldur líka fjármögnun og í raun eignarhaldi á verkefninu. Auðvitað er þetta með ýmsu móti en þetta fyrirkomulag hefur ekki verið alveg laust við gagnrýni í gegnum tíðina.

Fyrir þremur árum, árið 2017, birtu 152 samtök á heimsvísu, sem fást við hluti eins og upprætingu fátæktar, aukinn jöfnuð í samfélögum, umhverfisvernd, jafnrétti kynja og fleira í þeim dúr, áskorun til Alþjóðabankans sem hefur kannski verið hvað duglegastur að reyna að ýta á þessar einkaframkvæmdir — ég veit ekki hvaða orð skal nota en ég ætla að halda mig við einkaframkvæmd — víða um heim mjög lengi. Þessi 152 samtök komu sér saman um að gagnrýna það á þeim grundvelli að þetta væru kostnaðarsamar og áhættusamar aðgerðir, þ.e. að þær kosti að jafnaði í kringum 30% meira en sambærileg verkefni sem eru fjármögnuð af ríkinu. Og í ýmsum tilfellum hefur kostnaðurinn tvöfaldast. Þá ber kannski að nefna íslenska dæmið um Vaðlaheiðargöng þar sem kostnaðurinn næstum því tvöfaldaðist. Það mætti líka nefna sjúkrahús í Lesótó sem fór langt fram úr áætlun og 3,2 milljarða evra verkefni sem lenti á spænskum skattgreiðendum og almenningi vegna þess að það misfórst í höndum einkaaðila. Í öllum þessum tilvikum lendir áhættan á ríkinu. Í leikjafræði og hagfræði er talað um, með leyfi forseta, CC–PP-leiki eða „commonize costs–privatize profits“. Það mætti þýða sem þjóðnýtingu kostnaðar en einkavæðingu tekna eða hagnaðar. Slíkir leikir snúast nákvæmlega um það sem stendur á miðanum, að almenningur sé látinn bera allan kostnaðinn af því þegar verkefnin ganga illa, að almenningur taki í reynd alla áhættuna af verkefninu, en þegar verkefnið gengur vel njóti tilgreindir einkaaðilar góðs af.

Nú er ég mjög hrifinn af opnum og frjálsum mörkuðum og vil gjarnan að þeir séu til. En ég get ekki séð að þetta samræmist hugmyndum um frjálsa markaði. Þetta er aðferð til að beita ríkisvaldi í þágu ákveðinna einkaaðila og verið er að réttlæta það með tilvísun í almannahag. Munurinn er auðvitað fyrst og fremst fjármögnunin, þ.e. hver skuldar fjármagnið og hver tekur þá áhættuna? Við sáum með Vaðlaheiðargöng á sínum tíma að reglum um ríkisábyrgðir var kippt úr sambandi til að leyfa ríkisábyrgð á framkvæmdinni. Í rauninni lenti áhættan á ríkinu þrátt fyrir að tæknilega séð hafi einkaaðili vissulega séð um fjármögnunina. Síðan er næsta atriði hvert gróðinn fer. Hver er það sem nýtur góðs af gjaldtöku? Gjaldtakan, ein og út af fyrir sig, hefur verið gagnrýnd ítrekað í þessu samhengi vegna þess að fólk sem nú þegar borgar töluvert mikið í bifreiðagjöld, bensíngjald og annað hefur ekkert rosalega mikinn áhuga á því að borga auk þess tolla fyrir að fá að nota vegi sem ættu að vera byggðir fyrir almannahag. Það má alveg rífast um þetta atriði.

Þriðja atriðið er samfélagslegur ábati. Allir eru sammála um að þessi sex verkefni í frumvarpinu séu mikilvæg fyrir almannahag. Þau þjóna öll — eða ókei, ég hef reyndar efasemdir um eitt — þau þjóna fyrir mestan part almannahag. Eins og samtökin 152 bentu á eykur það muninn á stöðu ríkra og fátækra þegar fólk sem hefur kannski ekki mikið milli handanna þarf að greiða fyrir notkun á innviðum sem hefðu undir öllum eðlilegum kringumstæðum átt að vera ríkisframkvæmd til að auka almannahag. Samtökin 152 bentu einnig á að svokölluðum PPP-verkefnum, eða einkaframkvæmdarverkefnum, fylgdi aukin hætta á spillingu og að þau drægju úr getu ríkja til að setja reglur um einkahagsmuni. Þetta hefur ítrekað komið upp, t.d. í þeim tveimur dæmum sem ég nefndi, þ.e. frá Spáni og Lesótó, en líka víðar. Í ýtrustu tilvikum, ég hef reyndar ekki áhyggjur af íslenska tilfellinu, benda samtökin á að einkaframkvæmdarverkefni af þessu tagi geti ógnað umhverfisverndarsjónarmiðum og jafnvel mannréttindum. Ég hef ekki áhyggjur af því, alla vega ekki í tilviki þeirra sex verkefna sem hér eru. En það er alveg þess virði að við tökum mjög alvarlega ábendingar þessara samtaka sem voru sendar til Alþjóðabankans árið 2017 og áttum okkur á hversu mikill skaði hefur hlotist af því þegar öll áhættan fellur á samfélagið á meðan hagnaðurinn verður í rauninni eftir hjá einkaaðilum. Það er ekki frjáls markaðsaðgerð. Þetta snýst um að ríkisvaldi sé beitt í þágu ákveðinna einkaaðila og það réttlætt með tilvísun í almannahag.

Þá er kannski eðlilegt að við spyrjum okkur um mikilvægi verkefnanna. Við vitum að þessi verkefni eru mikilvæg; Hringvegur norðan Selfoss, brú yfir Ölfusá, hringvegur um Hornafjarðarfljót, uppfærsla á Axarvegi, hringvegur um Mýrdal, jarðgöng í Reynisfjalli og Sundabraut. Allt eru þetta verkefni sem er hægt að sammælast um að séu þjóðþrifaverk. Þau skipta miklu máli og ættu að koma til framkvæmda sem allra fyrst. Ég hef ákveðnar efasemdir um mikilvægi tvöföldunar Hvalfjarðarganga. Ég hef ekki séð nein bein rök fyrir þeirri aðgerð, einna helst að þetta myndi þýða að fjórar akreinar væru undir fjörðinn. Í rauninni eru bara tvær akreinar hvorum megin ganganna, nema til standi að bæta við akreinum. En þá ætti umræðan alla vega að snúast um að hafa tvær akreinar í hvora áttina alveg upp að göngunum og sjá síðan til með framhaldið þar. Ókei, segjum að öll sex verkefnin séu mikilvæg. Þá ætti röksemdafærslan að vera nokkurn veginn á þessa leið: Verkefnin eru augljóslega í almannahag. Þau skipta öll máli fyrir samfélagið. Þá ætti ríkið að framkvæma þau. Það þarf ekki meira. Það þarf ekki að bæta við þessu aukaskrefi: En við ætlum að láta einkaaðila fjármagna þau. En við ætlum að leyfa einkaaðilum að taka veggjöld fyrir. En við ætlum að leyfa einkaaðilum að hirða ágóðann af þessu.

Við höfum í gegnum sögu Íslands, og reyndar sögu flestra ef ekki allra landa í heiminum, notað almannafé til að byggja upp innviði og það hefur virkað. Ég hef ekki getað fengið góða skýringu á því hvers vegna okkur tókst á sínum tíma að byggja Ölfusárbrú eins og hún er í dag. En það er ekki hægt að fjármagna nýja Ölfusárbrú núna. Ég hef ekki fengið góða skýringu á því. Ég hef reyndar ekki einu sinni fengið slæma skýringu á því. Ég hef ekki fengið neina skýringu á því hvers vegna ríkissjóður stendur svo afskaplega höllum fæti, þrátt fyrir að tölurnar segi annað, að við getum ekki fjármagnað uppbyggingu sem hefur setið á hakanum í áratugi. Í staðinn fyrir að svara þeirri spurningu, og ákveða jafnvel að við ætlum að leggja pening í að byggja upp þá innviði sem þarf, er hlaupið með allt beint upp í hendurnar á einhverjum einkaaðilum sem vilja græða á því að gera það sem ríkið hefði átt að gera og ætti að gera. Ég skil ekki þessa hugmyndafræði.

Þá segja einhverjir: Jú, þetta snýst um forgangsröðun. Ég er sammála því. Auðvitað snýst þetta um forgangsröðun. Við eigum að forgangsraða þeim verkefnum sem þarf að fara í og það er alveg ljóst að öll þessi verkefni ættu að vera einhvers staðar í forgangsröðinni. Sum ættu að vera framar en önnur, sum kannski aðeins aftar, vegna þess að sum verkefni í samgönguáætlun eru kannski eðlilega rétthærri í forgangsröðinni. En hvers vegna geta ekki öll þessi verkefni verið í forgangsröð og farið af stað á eðlilegum tíma? Hvað veldur því að ekki er hægt að gera það og setja fjármagnið sem þarf í að byggja upp þá innviði sem þarf og vinna þá aðeins lengur upp þennan mörg hundruð milljarða króna innviðahalla sem við vitum öll að er til? Jú, það er nefnilega nokkuð áhugavert. Það eru til lög um opinber fjármál sem hafa haldið útgjöldum ríkisins, og ekki bara útgjöldunum heldur öllum ríkisrekstri, í spennitreyju síðan þau voru sett. Skuldahlutfallsreglan og allt það er einhvern veginn svo heilagt í huga ríkisstjórnarinnar að það á frekar að fara út í eitthvað sem hefur verið lýst sem kostnaðarsömum, áhættusömum aðgerðum sem auka muninn á ríkum og fátækum, auka hættu á spillingu, draga úr getu ríkisins til að setja reglur um einkahagsmuni o.s.frv. með öllum þeim dæmum sem við þekkjum, frá Hvalfjarðargöngum, sem fóru svolítið fram úr í heildarkostnaði, 20% að mig minnir, til Vaðlaheiðarganga, sem fóru fram úr um 8 milljarða kr. og enduðu í 17 milljörðum í heildina o.s.frv. Það var ákveðið að fara þá leið frekar en að horfast í augu við þau augljósu sannindi að lög um opinber fjármál eru röng. Skuldareglan er röng. Uppbygging laga um opinber fjármál er röng. Hún byggir á hugmyndafræði sem er gjaldþrota.

Það á að laga þetta. Hvers vegna þarf að laga þetta? Vegna þess að uppbygging samfélagsins situr á hakanum þar til þetta verður lagað. Þessi tilteknu lög munu kannski setja smávaralit á svínið og láta líta út fyrir að eitthvað meira sé að gerast, að því gefnu að einhverjir einkaaðilar líti á eitthvað af þessum verkefnum sem nægilega arðbær fyrir sig. Að vísu grunar mig að í einhverjum tilfellum sé það augljóst og jafnvel fyrir fram ákveðið. En við vitum að uppbygging samfélagsins kostar pening. Við vitum kannski ekki endilega hvað kostar að reka samfélag og það er kannski pólitíska deilumálið hérna. Fólk hefur mismunandi hugmyndir um hvað það er sem skiptir miklu máli fyrir samfélag. En ég held að allir geti verið raunsæir og horft á það þannig að það að leyfa innviðum samfélagsins að grotna niður, bíða endalaust með að ráðast í mikilvægar framkvæmdir og fara síðan þessa leið, er ekki góð leið til að reka samfélag. Það sem gerir þetta verra er — og nú tala ég kannski sem þingmaður Suðurkjördæmis sem er samt ekki hrifinn af þessari tilteknu gerð pólitíkur — að þetta er ákveðið kjördæmapot. Þarna eru ákveðnar framkvæmdir teknar út úr samgöngupakkanum, út úr eðlilegri forgangsröðun, og sagt við fólk að þetta muni ganga einhvern veginn hraðar fyrir sig vegna þess að ríkið stígi til hliðar. En reyndin er sú að þetta hefði alveg getað gengið mun hraðar fyrir sig ef ríkið hefði bara tekið afstöðu, lagað lögin um opinber fjármál, fjármagnað þau verkefni sem þarf og gert þetta vel eins og hefur verið gert ítrekað í gegnum tíðina og virtist hafa verið alsiða þar til fyrir um 40 árum. Þá var allt í einu óvinsælt að samfélagið byggði sig upp á eigin forsendum og með samvinnu og samhjálp.

Þess vegna skil ég ekki þegar þetta er kallað samvinnuverkefni. Er ekki samfélagið samvinnuverkefni? Getum við ekki reynt að gera þessa hluti á eðlilegum forsendum? Það eru verkefni þarna sem skipta mig máli, skipta kjósendur okkar máli, skipta almenning í landinu máli: Hringvegur norðan Selfoss, brú yfir Ölfusá, hringvegur norðan við Hornafjarðarfljót, Axarvegur, tvöföldun Hvalfjarðarganga, eflaust, hringvegur um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjalli, um þetta hefur verið talað í mörg ár, og Sundabraut, ég veit ekki hversu margir áratugirnir eru þar. Í öllum tilvikum skiptir máli að við klárum þessi verkefni. Það skiptir máli að við gerum það vel og það skiptir máli að þetta komist í notkun til að almenningur geti notið góðs af og til að hagkerfi okkar geti notið góðs af betri samgöngum. En að gera það með þessum hætti gengur í rauninni gegn markmiðinu um að reka gott samfélag. Þetta er vond leið, það er búið að margskjalfesta það. Við höfum öll sýnidæmi sem við þurfum. Ég trúi ekki að fólk geti ekki gert hlutina betur.