150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[15:28]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Ég held að í því hafi ekki verið nein spurning heldur almenn vangavelta. Ég ætla að bregðast við vangaveltunni og segja: Ég hef gagnrýnt takmarkanir sem lög um opinber fjármál valda í tengslum við arðsamar uppbyggingarframkvæmdir, t.d. í vegakerfinu. Ég tel algjörlega nauðsynlegt að þetta atriði verði skoðað með það í huga að liðkað verði fyrir því að hægt sé að vinna hagkvæmar framkvæmdir með hefðbundnum hætti í gegnum Vegagerðina og fjármögnun samgönguáætlunar. Bara þannig að því sé til haga haldið.

Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom aftur inn á 20–30% kostnaðaraukann hvað einkaframkvæmdir sem þessar varðar sem hann vísaði í í fyrra andsvari sínu. Ef við tölum áfram um fyrstu þrjú verkefnin, þessi hefðbundnu vegagerðarverkefni sem eru hér, veginn um Öxi, Hornafjarðarfljót og nýja brú yfir Ölfusá, á sú kenning í mínum huga ekki við því að áhætta einkaaðilans í því samhengi verður nákvæmlega sú sama og í hefðbundnu vegagerðarverkefni. Það verður ekkert nema framkvæmdahlutinn sem einkaaðilinn heldur á. Fjármögnun, innheimta gjalda ef til kemur, utanumhald útboðs; þetta verður allt á hendi Vegagerðarinnar. Þetta er bara hefðbundið Vegagerðarverkefni. Ég hef í rauninni verið gagnrýninn á að þessi verkefni séu þarna inni en þau mega alveg falla undir þetta prinsipp. Og ef gjaldhækkun er leið til að flýta fyrir þá er það allt í lagi. En það er sett í einhvern annan búning eins og dálítið er verið að gera þessa dagana. Síðan er allt annars eðlis — forseti, ég þarf bara í tíu sekúndur í viðbót — þegar kemur t.d. að Sundabraut, (Forseti hringir.) svona verulega tæknilega flóknu verkefni, þá held ég að verulegt hagræði geti falist í því að fá hönnuði og einkaaðila (Forseti hringir.) snemma til að leita hagkvæmustu lausna. Þar getur náðst fram verulegur sparnaður, (Forseti hringir.) ekki bara kostnaðaraukinn sem hv. þingmaður einblínir á.