150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

446. mál
[18:00]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hér erum við að fjalla um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þetta er eitt af þeim málum sem hefði verið svo auðvelt að ná samstöðu um, standa faglega að og gera þetta almennilega. En því miður þurfti að afgreiða þetta mál með ótrúlegum hraða og það fékk þar af leiðandi ekki þá umsögn og þau vinnubrögð sem væru okkur til sóma, að þetta væri gert almennilega.

Aðaláhyggjuefnið fyrir mig persónulega í þessu máli eru viðkvæmar persónuupplýsingar. Við verðum að átta okkur á því að í sjúkraskrá eru viðkvæmar persónuupplýsingar sem fólk veit ekki um. Ýmsir hlutir eru í sjúkraskrám sem fólk hefur ekki hugmynd um að sé búið að skrá þar. Það er ekki neitt til ömurlegra en að lenda í því að lesa í einhverri greinargerð hjá tryggingafélagi eða bara einhvers staðar úti í bæ, í einhverri matsgreinargerð, að það sé verið að vísa í einhver gögn sem maður veit ekki að eru til um mann og eru sjúkragögn og mjög persónulegar upplýsingar. Svoleiðis hlutir ske og hafa skeð og þess vegna verðum við að sjá til þess að farið sé eftir persónuverndarlögunum algjörlega í einu og öllu. Þess vegna er ég á minnihlutaálitinu hér og styð það heils hugar. Ég hefði viljað óska þess að þetta hefði verið unnið betur. Málið sjálft er mjög gott en því miður ekki nógu vel unnið og þar af leiðandi kemur aftur upp sú staða að það er ömurlegt að vera sammála máli sem á að vera gott og maður ætti að styðja heils hugar að væri farið í en þegar maður sér að það eru göt í því er svo erfitt að styðja það þannig. Það er eiginlega bara sorgarsaga að það skuli vera þessi hraði á þessum málum.Við verðum hér í þinginu að fara að taka upp önnur vinnubrögð.