150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

665. mál
[18:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, með síðari breytingum, sem snýr að vinnutíma starfsmanna sem veita persónulega notendastýrða aðstoð. Nefndin hefur fengið á sinn fund tíu gesti og fékk umsagnir frá fjórum aðilum um málið.

Með frumvarpinu er lagt til að framlengd verði til ársloka 2020 heimild til að víkja frá ákvæðum 53. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, með samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins þannig að hvíldartími verði styttri hjá starfsfólki sem veitir einstaklingum þjónustu á grundvelli 11. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Meiri hlutinn bendir á að framangreindri heimild var upphaflega ætlað að gilda til ársloka 2016 en var framlengd þrisvar sinnum. Um er að ræða mikilvæga þjónustu við fatlað fólk og finna þarf lausn sem tryggir réttindi þess og réttindi starfsfólks sem sinnir notendastýrðri persónulegri aðstoð. Þau réttindi um hvíld sem kveðið er á um í 53. gr. eru lágmarksréttindi sem ætlað er að tryggja öryggi og heilsu starfsfólks. Nauðsynlegt er því að þeirri vinnu sem átti að ljúka fyrir rúmum þremur árum verði lokið sem fyrst og fundin lausn sem tryggi sem best réttindi starfsfólks með tilliti til sérstaks eðlis þeirrar þjónustu sem þau veita.

Fyrrnefnd heimild var í bráðabirgðaákvæði 9 í lögunum sem er fallið úr gildi þar sem síðasta framlenging var út árið 2019. Telur meiri hlutinn því rétt að taka ákvæðið upp á ný í heild. Ef ætla má að vinna við tillögur að lausn tefjist beinir meiri hlutinn því til ráðherra að leggja fram frumvarp til framlengingar áður en gildistími ákvæðisins rennur út svo að ekki verði óvissa um gildi þeirra samninga um notendastýrða persónulega aðstoð sem gerðir eru.

Auk þeirrar breytingar sem lýst er hér að framan leggur meiri hlutinn til orðalagsbreytingu á fyrirsögn frumvarpsins til að tryggja samræmi við almenna hugtakanotkun yfir notendastýrða persónulega aðstoð.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef reifað hér í máli mínu. Guðmundur Ingi Kristinsson og Lilja Rafney Magnúsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir þingsins.

Undir þetta skrifa hv. þingmenn í velferðarnefnd: Helga Vala Helgadóttir, formaður, með fyrirvara, Ólafur Þór Gunnarsson, Vilhjálmur Bjarnason, Anna Kolbrún Árnadóttir, líka með fyrirvara, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Vilhjálmur Árnason.