150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

665. mál
[18:06]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir yfirferðina. Já, ég er á nefndarálitinu með fyrirvara og lýtur fyrirvari minn að tvennu. Annars vegar því að málið er tekið út á þeim tímum þar sem afskaplega lítill tími gefst til að fara vel yfir það og vinna það af natni, eins og nauðsynlegt er af því að það koma auðvitað einhverjar athugasemdir við það.

En ég vil líka koma fram með þá athugasemd mína að það er alveg ótækt hvað þetta hefur tekið langan tíma, að ár eftir ár þurfi að leggja fram framlengingu á ákvæðum af því að mál þokast hægt inni í ráðuneytum, í nefndum sem voru settar á laggirnar hálfu ári eftir að þær áttu að vera settar á laggirnar o.s.frv. Ég held að þetta sé ábending til okkar, og það kemur svo sem fram í nefndarálitinu, og ábending til hæstv. félagsmálaráðherra um að klára þetta mál til að við þurfum ekki að standa hér aftur að ári liðnu og framlengja í einhverju sem er ófullkomið. Það auðvitað gengur ekki. Það eyðir tíma okkar allra og það kemur niður á þeim sem síst skyldi, notendum þessarar þjónustu.