139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

störf þingsins.

[14:26]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Nú eru einungis örfáir dagar eftir af þinginu samkvæmt starfsáætlun. Ég hygg að það séu níu þingfundadagar fyrir utan nefndadaga. Þannig standa mál að ríkisstjórnin á enn eftir að svara 52 fyrirspurnum. Þar af eru 37 fyrirspurnir komnar fram yfir þau tímamörk að það standist þingsköp að við bíðum enn svara. Ég sé það á fyrirspurnum sem stafa frá þingmönnum í mínum þingflokki að 22 fyrirspurnir sem bíða svars eru löngu brunnar inni. Ein er síðan í desember, en ráðherrarnir hafa samkvæmt þingsköpum tíu daga til að svara.

Þetta er staðan í þinginu. Þetta sýnir viðhorf ráðherranna til að fara að vilja þingsins og svara fyrirspurnum sem þaðan stafa. Við höfum þá stöðu núna þegar örfáir dagar eru eftir af þingstörfum að 70 mál eru óafgreidd í nefndum, níu bíða enn 1. umr. og nú er aðalumræðan í þjóðfélaginu um hið leynilega plagg, nýja frumvarpið um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem ríkisstjórnin er að sjálfsögðu búin að gefa út yfirlýsingu um hvernig verði meðhöndlað þegar það kemur inn í þingið, eins og ríkisstjórnin stjórni þingstörfunum en ekki þingið því sem gerist hjá ríkisstjórninni. Það er nefnilega kominn tími til að ríkisstjórnin og ráðherrarnir sem þar sitja fari að átta sig á því hvar æðsta valdið í stjórnskipun landsins er. Það er á þinginu. (Gripið fram í: … Davíð Oddsson …) (Gripið fram í: Og forsetinn.) Ég frábið mér þau skilaboð sem berast í sífellu frá ráðherranum um að bráðum komi fram frumvarp en samkvæmt reglum þingsins rann sá frestur út 1. apríl. Nú fer bráðum að koma frumvarp, tveimur mánuðum eftir að síðasti dagur leið, og okkur er tilkynnt að það hljóti að verða afgreitt innan skamms, væntanlega eins og hin tæplega 80 málin. (Forseti hringir.) Ég vonast þá líka til að það sama gildi um fyrirspurnirnar 52 sem þingið ætlast til (Forseti hringir.) af ráðherrunum að þeir svari.