139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs.

[15:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Reglan er sú við utandagskrárumræður að við sem erum málshefjendur sendum spurningar til hæstv. ráðherra með góðum fyrirvara. Ég sendi spurningar til hæstv. ráðherra í gærkvöldi. Ég á síðan að geta komið hingað upp og sagt álit mitt á svörunum. En það hafa engin svör komið frá hæstv. ráðherra. Ég mun því áskilja mér rétt til þess að halda aðra utandagskrárumræðu til að geta tekið afstöðu til svaranna síðar. Ég hef mikinn áhuga á þessu máli eins og hv. þm. Mörður Árnason benti á, enda fyrrverandi formaður umhverfisnefndar þegar við fjöllum um þetta mál.

Það er ekki boðlegt, virðulegi forseti, að segja að aðalveiðisvæðið sé bara 2,5% af svæðinu. Þarna er lengsta hefðin fyrir veiði. Hér þýðir ekki að horfa út í salinn og halda því fram að nýting og vernd fari ekki saman. Það fólk, fullyrði ég, alveg sama hvernig við flokkum það, hvort við flokkum það sem göngufólk, hestamenn — það er búið að vera að skipuleggja hestaferðir þarna í 20 ár — þeir sem eru á hjólum, þeir sem vilja koma á bílum, vill í langflestum tilvikum, og vei þeim sem eru undantekningarnar, njóta náttúrunnar og vernda hana. Ef við ætlum að ná samstöðu um að hafa hér stóra þjóðgarða, sem ganga fyrst og fremst út á náttúruvernd, og nýta þá eins og við höfum gert með góðum hætti þá verður að taka tillit til þessa.

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra hefur nú verið óhrædd við að segja skoðanir sínar á hinum ýmsu málum. Ég man ekki betur en hún hafi haft áhyggjur af því að það væri verið að eyðileggja hraunið áður en það kólnaði og vildi fá að setja menn í rannsóknir í tengslum við það, svo eitt dæmi sé tekið. Ekki vantar að hæstv. ráðherra geti tekið á sig rögg.

Ef við höfum búið til slíkt kerfi að við ýtum þjóðinni út úr þjóðgarðinum (Forseti hringir.) þá treysti ég því að hæstv. ráðherra segi okkur hvort hún telji ekki að þá sé of langt (Forseti hringir.) gengið og að við þurfum að skoða málið vel. Við viljum sátt um þjóðgarðana okkar. (Gripið fram í.)