139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[16:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum nefndarálit frá hv. félags- og tryggingamálanefnd um tillögu til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára. Ég skrifa undir það en það er ekki þar með sagt að ég sé yfir mig hrifinn af öllum þeim lögum sem gilda um jafnréttismál á Íslandi. Til dæmis er ég ekkert voðalega hrifinn af lögum sem kveða á um að konur skuli eiga rétt á að vera í stjórnum félaga bara vegna þess að þær eru konur. Þegar hins vegar búið er að setja lög fer ég að þeim og fellst á þau sem slík. Þess vegna skrifa ég undir þetta nefndarálit þar sem einmitt er fjallað um að konur vanti í stjórnir og annað slíkt.

Það er dálítið undarlegt eins og hér hefur komið fram að lesa tillögu til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum þar sem endalaust er verið að hvetja opinbera starfsmenn til að fara að lögum. Þetta er dæmi um agaleysi í þjóðfélaginu. Lög eru lög og þá eiga menn að fara að þeim, að sjálfsögðu, umferðarlögum sem öðrum lögum. Ég mundi vilja að menn yrðu dálítið agaðri, til dæmis gæti ráðherra spurt forstöðumenn stofnunar sem ekki kyngreinir upplýsingar: Ertu nokkuð að hætta, vinurinn? Ef hinn segir: Nei, nei, ég ætla ekkert að fara að hætta. Þá segir hann: Komdu þessu í lag innan viku. Þá fer forstjórinn væntanlega til forritarans sem gerir þetta og spyr hann: Ertu nokkuð að hætta, vinurinn? Og forritarinn segir: Nei, ég vil nú ekki vera atvinnulaus um þessar stundir. Komdu þessu þá í lag í hvelli. Og upplýsingarnar koma. Það er svona sem þarf að vinna, frú forseti. Menn eiga ekki að komast upp með það að fara ekki að lögum.

Heilmiklar tölulegar upplýsingar sem koma fram aftast í þessari tillögu til þingsályktunar eru mjög sláandi. Í fyrsta lagi ætla ég að spyrja: Hvers vegna í ósköpunum viljum við jafnrétti? Viljum við yfirleitt jafnrétti? Er ekki bara ágætt að hafa ójafnrétti? Það sem mælir helst með því að hér sé jafnrétti er siðferðilegs og hreinlega efnahagslegs eðlis. Ef ekki er jafnrétti og óhæfari karlmenn eru ráðnir til að sinna stöðum og þeim jafnvel borguð hærri laun verður minni arðsemi í þjóðfélaginu. Það að ráða ekki hæfasta starfsmanninn, sem væri þá kona, til að gegna ákveðnu starfi gerir það að verkum að starfinu er verr sinnt og að þjóðfélagið í heild sinni tapar á því. Þjóðfélagið tapar á ójafnrétti, frú forseti. Ég er að reyna að undirstrika það, en svo er þetta auk þess siðferðilegt. Vil ég til dæmis að dætur mínar séu meðhöndlaðar verr en synir mínir og þurfi að sætta sig við lægri laun? Vil ég að það sama um systur mínar eða bræður? Nei, ég vil það ekki. Ég sætti mig ekki við það. Þannig er þetta bæði siðferðilegt og hreinlega hagfræðilegt atriði.

Svo kemur spurningin: Er jafnrétti? Ég segi nei. Það er svo langt því frá. Ég hef alltaf tekið sem mælikvarða að mæta á aðalfund Seðlabankans þar sem væntanlega rjóminn af fjármálakerfinu mætir. Ég mætti reyndar ekki síðast, ég gat það ekki, en ég geri ráð fyrir að jafnfáar konur hafi verið sem endranær á þeim fundi sem segir mér að það er ekki jafnrétti.

Svo þegar maður skoðar þessar töflur eða línurit sem því miður eru mjög ólæsilegar, það mætti bæta úr því með litlum tilkostnaði, sér maður strax að í störfum við umönnun er fjöldi kvenna yfirgnæfandi, og því fleiri konur sem börnin eru yngri. Launin eru líka mjög lág. Af hverju vinna ekki karlar við umönnun? Af hverju ekki? Hvað veldur því að kona sækir um á leikskóla þó að launin séu svona lág? Hvað veldur því eiginlega?

Það var talað um minna jafnrétti úti á landi. Hvers vegna í ósköpunum sækja konur úti á landi ekki um pláss sem sjómenn? Það kemur fram í gögnunum að 100% sjómanna séu karlmenn. Ég trúi því reyndar ekki, en það kemur fram í gögnunum. Mjög stór hluti sjómanna er karlmenn og ég skil ekki af hverju. Þetta eru hálaunastörf oft og tíðum. Hvers vegna sækja konur ekki um að verða sjómenn? Hvað veldur því eiginlega? Ég skil það bara ekki.

Og múrarar? Reyndar er múrarastarfið dálítið erfitt, ég fellst á það, líkamlega erfitt, en eftir að múrsprautur komu og annað slíkt held ég að starfið sé alveg viðráðanlegt fyrir konur líka. Það er líka sagt í þessum gögnum að í þeirri grein séu karlar 100% starfsmanna.

Síðan er hérna brottfall úr framhaldsskólum. Það eru yfirgnæfandi karlmenn. Hvernig í ósköpunum stendur á því? Af hverju er það ekki rannsakað? Af hverju er ekki kannað hvað veldur brottfalli hjá karlmönnum sem oft er heilmikið niðurbrot á sjálfsvirðingu og annað slíkt? Svo eru konur í vaxandi mæli að yfirtaka háskólana. Hvernig stendur á því? Er það æskilegt? Er æskilegt að karlmenn verði í einhverjum skilningi ómenntaðri en konur? Ég held að mjög margt segi manni að við þurfum að gæta okkar.

Mig langar að tala um fæðingarorlofið sem Sjálfstæðisflokkurinn átti mikinn þátt í að koma á og ég studdi eindregið á sínum tíma. Ég hélt jómfrúrræðu mína einmitt um fæðingarorlof og hvað það væri mikill munur á milli kynjanna á þeim tíma. Það er langt síðan, löngu fyrir feðraorlofið. Nú er búið að eyðileggja það. Það er búið að lækka hámarkið aftur og aftur, það var sett hámark á hverjir fengju þetta, menn með há laun fengu ekki bætur tengdar tekjum í fæðingarorlofi sem segir mér ekkert annað en það að fólk vill jafnrétti hjá lágu tekjunum en ekki hjá háu tekjunum. Þar eiga karlmennirnir að vera áfram. Það er akkúrat það sem er gert með því að gera karlmenn sem stjórnendur ódýrari en konur sem stjórnendur.

Ég lagði til á sínum tíma og barðist fyrir því að jafnréttisvottun yrði sett í gang. Mér skilst að það sé komið í sæmilegan farveg og ég vonast til að það verði fljótlega ofan á. Það er nokkuð sem fyrirtækin taka á sig sjálfviljug.

Hættan við jafnréttisbaráttu, þegar farið er að ráða fólk til að berjast fyrir jafnrétti, er að það myndist jafnréttisiðnaður eins og gerist í áfengisvörnum og öðru slíku, það myndist bara iðnaður í kringum jafnrétti. Fólk sem starfar við þetta í áratugi fer að hugsa um lífeyrisréttindi sín, fríið o.s.frv. og neistinn sem felst í því að menn berjist fyrir einhverju dofnar og getur jafnvel snúist upp í andhverfu sína vegna þess að þeir sem vinna í jafnréttisiðnaðinum — hvað mundi gerast ef næðist algjört jafnrétti? Starfsmennirnir yrðu atvinnulausir. (Gripið fram í.) Þeir vilja þá ekki endilega ná fram fullkomnu jafnrétti, a.m.k. ekki alveg strax.

Svo hefur verið bent á, ég hef bent á það líka, að einstæðir forsjárlausir feður með nokkur börn, tvö, þrjú börn — menn geta lent í því að eiga tvö, þrjú börn og skilja. Það kemur fyrir. Ef þeir fá ekki forsjá yfir börnunum sínum eru þeir í virkilega slæmum málum, sérstaklega ef þeir eru atvinnulausir. Þeir geta tæpast lifað en það hefur enginn áhuga á þessu misrétti af því að þetta eru karlmenn.

Ég held að jafnréttisumræðan þurfi að fara að snúast líka um karlmenn, ekki bara um konur. Vissulega er ástæða til að gæta að stöðu kvenna, því að hún er mjög slæm, en það vill svo til að verstu dæmin sem maður sér á Íslandi um stöðu einstaklinga eru forsjárlausir feður með tvö, þrjú börn. Atvinnulausir, forsjárlausir feður geta ekki lifað. Mér finnst að það þurfi að taka á því. Það er einmitt verið að ræða það í þessari nefnd um endurskoðun almannatryggingakerfisins og velferðarkerfisins sem ég á sæti í.

Ég er samt með á þessari þingsályktunartillögu og ég vonast til að þetta mjaki jafnréttismálum eitthvað fram, en maður er orðinn dálítið leiður á því hvað þetta gengur hægt.