149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

framkvæmd embætta sýslumanna á lögum um aðför og lögum um nauðungarsölu.

995. mál
[13:09]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Almennt hef ég stutt beiðnir um skýrslur í þessum sal af því að mér finnst mikilvægt að þingmenn geti óskað upplýsinga frá framkvæmdarvaldinu. Ég vil þó nýta þetta tækifæri til að taka undir með hv. þm. Birgi Ármannssyni, ekki vegna þess að ég leggist almennt gegn skýrslubeiðnum heldur tel ég að þær megi gjarnan skoða betur. Ég er sjálf búin að vera í töluverðan tíma ábyrgðaraðili á skýrslubeiðni frá hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni um verðugt og mikilvægt mál sem hefur tekið töluverðan tíma að vinna úr. Ég er með tvær skýrslubeiðnir, annars vegar frá hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni og hins vegar hv. varaþingmanni Álfheiði Ingadóttur um málefni sem heyrir undir fjöldamörg ráðuneyti og er vísað til mín sem einhvers konar verkstjóra ríkisstjórnar en kallar sömuleiðis á gríðarmikla upplýsingaöflun frá ólíkum ráðuneytum.

Ég mun ekki leggjast gegn þessari skýrslubeiðni frekar en ég hef gert hingað til en ég hvet forseta Alþingis eindregið til að taka þessi mál upp í forsætisnefnd. Ég held að það sé eðlilegt að skýrslubeiðnir fái meiri undirbúning og skýrari reglur. Það er líka mjög leiðinlegt að geta ekki orðið við óskum þingmanna því að það er hlutfallslega stuttur tími sem okkur er gefinn til að bregðast við jafnvel mjög umfangsmiklum beiðnum. Ég held að við hljótum (Forseti hringir.) að geta skapað samstöðu í þinginu um að breyta þessu verklagi.