149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

framkvæmd embætta sýslumanna á lögum um aðför og lögum um nauðungarsölu.

995. mál
[13:17]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Mér finnst þetta skemmtilegur eldhúsdagur, mér finnst gaman þegar við ræðum fyrirkomulag starfs okkar. Ég verð bara að segja að ég skil ekki alveg að það sé túlkað sem einhver umkvörtun yfir skýrslum að eitthvað hafi snaraukist í starfi ákveðinnar stofnunar. Mér finnst eðlilegt og ábyrgt að setjast yfir af hverju það er. Er það af því að það skortir einhverjar aðrar leiðir sem eru kannski betri? Þarf að halda betur utan um þetta?

Ég mun standa mikinn vörð um rétt þingmanna, hvar í flokki sem þeir standa, til að leggja fram skýrslubeiðnir en mér finnst jafn eðlilegt að við setjumst yfir málin og skoðum af hverju þessi mikla fjölgun er. Það á ekki bara við um skýrslubeiðnir til ráðherra, það hefur t.d. komið fram á nefndarfundum sem ég hef setið að stofnanir sem hafa þurft að svara skýrslubeiðnum hafa stundum þurft að leggja önnur mál til hliðar, jafnvel frumkvæðismál, meðan þær svara. Skýrslubeiðnum fylgir aldrei nein fjárhagsáætlun. Hvernig tryggjum við best skýrslubeiðnir og að við getum sem þingmenn kallað eftir þeim upplýsingum af því að úr þeim verða oft mjög góð mál? (Forseti hringir.) Skoðum þetta í stærðarsamhengi þess hver áhrifin eru.