149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

framkvæmd embætta sýslumanna á lögum um aðför og lögum um nauðungarsölu.

995. mál
[13:21]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ákveðin gæðakrafa á skýrslubeiðnir eins og er, þ.e. að níu þingmenn séu tilbúnir að kvitta upp á hana. Ferlið er ekkert bara að henda upp einhverjum spurningum og skella inn á þingið og þar með búið. Textinn fer í yfirlestur og það þarf oft hjálp hjá nefndasviði við að móta spurningarnar, endurorða þær eins og t.d. með skýrslubeiðni mína um rannsóknarskýrslur bankanna. Hún fór alveg fram og til baka því að það var pínulítið ný aðkoma að skýrslubeiðnum af því að það átti við svo marga ráðherra og samt þurfti að ná því fram að það væri hægt. Þá var það í gegnum forsætisráðherra. Þar fór í gang ákveðið ferli. Til að byrja með var mælt með því að hún væri lögð fram til fjármálaráðherra en eftir því sem komu fram athugasemdir var sú skýrslubeiðni afturkölluð og beiðnin sett í gegnum forsætisráðherra.

Það er margt að breytast í upplýsingasamfélaginu sem við erum að verða og þingið verður einfaldlega að taka tillit til þess. (Forseti hringir.) Það voru tillögur um að bæta upplýsingatækni sem myndi meira að segja spara. Það myndi hjálpa og jafnvel fækka skýrslubeiðnum. Hver veit?